Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta er það eina sem ég hugsa um þessa dagana"

Mynd: Aðsend / Aðsend

„Þetta er það eina sem ég hugsa um þessa dagana"

07.01.2021 - 12:49

Höfundar

Undanfarið hefur gönguskíðaæði gripið landann og fólk nýtur þess að fara um skíðabrautir. Æðiði hefur líka náð út fyrir troðnar slóðir og brautir því sífellt fleiri fara um á utanbrautarskíðum.

Haraldur Örn Ólafsson þrautreyndur fjallamaður og pólfari og Þóra Tómasdóttir ástríðukona um skíðaiðkun ræddu málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Haraldur stofnaði Fjallafélagið og Skíðabandalagið utan um sportið og þau hafa boðað fagnaðarerindi skíðamennskunnar í hlaðvarpsþáttunum Skíðabandalaginu.

„Ég myndi segja að ég væri nýfrelsuð. Haraldur, ég held að hann hafi fæðst með þessi skíði á sér,” segir Þóra um þetta nýja áhugamál sitt sem Haraldur hefur þó stundað lengi. „Ég hef allaveganna brölt á þessum skíðum vítt og breitt. Náttúrulega á pólana, Grænlandsjökul og fleira. Náttúrlega yfir allt Ísland. Einhvern veginn þróaðist þetta, þetta var nú aldrei planið, þetta er bara svo gaman,” segir Haraldur. 

Að sögn Haralds eru margir að uppgötva núna að það sé hægt að fara út fyrir brautirnar með ögn sterkari búnaði. „Vera bara frjáls og ganga til fjalla. Það má kannski líkja þessu við muninn á því að hlaupa á malbiki eða hlaupa út í náttúrunni á göngustígum sem er einmitt búin að vera ákveðin þróun í hlaupabransanum. Þetta er bara enn ein viðbótin við fjölbreytta flóru útivistar,” segir Haraldur.

Þóra frelsaðist og féll fyrir utanbrautarskíðunum alveg óvart. „Ég asnaðist að segja já við því að fara á skíðum yfir Vatnajökul. Hafandi ekki stigið á þessi skíði. En ég er alin upp á skíðum, mikið verið á svigskíðum í gegnum tíðina. Ég hugsaði að ég gæti einhvern veginn fundið út úr þessu bara,” segir Þóra. Hún byrjaði að æfa sig og hefur á undanförnu ári uppgötvað hvað henni finnst mjög gaman að vera á utanbrautarskíðum. „Þetta er það eina sem ég hugsa um þessa dagana. Að geta komist í góðan snjó eitthvert, ferðast algjörlega þangað sem mig langar á skíðum sem gera mér kleift að komast hvert sem er,” segir Þóra. 

Ekki er nauðsynlegt að feta í fótspor Haraldar og fara á skíðunum yfir pólana eða Grænlandsjökul. Haraldur segir að betra sé að byrja rólega, grípa í skíðin og fara bara rétt út fyrir bæinn. „Finna hvar er snjór og gaman að vera. Maður er algjörlega frjáls. Fullt af skemmtilegum heiðum og dölum þegar það er snjór, sem því miður mætti vera meira af. Við bíðum bara spennt eftir því,” segir Haraldur. „Það er auðvelt að byrja nálægt því sem maður þekkir, eins og Bláfjöllum. Fara þar út af sporinu og fara rétt út fyrir brautina. Svo eru hópar að myndast í kringum þetta núna. Það er bara eins og annað, maður þarf að kynnast þessu og taka þetta í ákveðnum skrefum,” bætir Haraldur við. 

Þóra tekur undir að lítið má sé að byrja og prufa sig áfram og ekki sé þörf á mikilli kunnáttu til að byrja með. „Þetta er bara skíteinfalt. Þú þarft bara að kunna að labba og nokkurn veginn að klöngrast áfram,” segir Þóra. 

Flest skíðasvæði hafa verið lokuð í faraldrinum og því hefur þurft að finna nýjar leiðir til að njóta útivistar. Þóra veit til þess að útivistarbúðir hafa verið að skófla út þessum skíðabúnaði að undanförnu. „Þú getur í raun farið hvert sem er hvenær sem er, óháð opnunartíma skíðasvæðanna. Mjög auðvelt að passa upp á fjöldatakmarkanir þegar þú ert ekki háð því að vera á stað þar sem eru sameiginlegir snertifletir,” segir Þóra.

Vegna ástandsins hefur Fjallafélagið átt erfitt með að skipuleggja ferðir en Haraldur segir að áherslan hafi þá færst yfir í að gefa góðar leiðbeiningar, sjá um skipulag, aðhald, fróðleik og fræðslu. Hann og Þóra byrjuðu svo með hlaðvarpsþættina Skíðabandalagið sem fjallar um áhugamálið.

Hægt er að hlusta á Skíðabandalagið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend