Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þarna var farið yfir öll mörk“

07.01.2021 - 16:47
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þótti undarlegt að fylgjast með mótmælendum í Washington í Bandaríkjunum ráðast inn í þinghúsið þar í borg í gær. „Þarna var farið yfir öll mörk,“ segir hann.

„Þessi tíðindi vekja auðvitað mikla undrun, vægast sagt. Manni finnst ótrúlegt að í landi hinnar miklu öryggisgæslu, á hæð sem á að vera betur varin en flestir aðrir blettir á jarðarkringlunni geti fólk ruðst inn án þess að lögreglumenn og aðrir bregðist við, eins og maður skyldi ætla að þeir myndu gera,“ segir Guðni.

„Enginn sá þetta fyrir, það er alveg morgunljóst,“ segir hann og bætir við að þetta veki upp margar spurningar. Hann segir að standa þurfi vörð um að fólk geti mótmælt en að þarna hafi verið farið yfir öll mörk.

„Við verðum líka að virða þau grunngildi að fólk greini á og sé innilega ósammála,“ segir Guðni. „En ef það er kynt undir það að allt fólk sem er á öndverðum meiði sé óvinurinn, þá erum við í vanda stödd.“

„Við sem samfélag, við hér á Íslandi og alþjóðasamfélagið, þurfum að takast á við þá tilhneigingu sem gætt hefur undanfarin ár að gera mótherja að óvinum sem eigi ekkert gott skilið. Við þurfum að vinna á móti þessum öfgum,“ segir Guðni.

Hann segir að þarna hafi verið vegið að lýðræðinu, sem hafi þó staðið af sér áhlaupið því þingið lauk staðfestingu forsetakjörsins seint í nótt að bandarískum tíma.

„Mér þótti Joe Biden, næsti forseti Bandaríkjanna, mæla af visku, speki og hvatti til stillingar. Það var fagnaðarefni að geta sent Biden heillaóskir aftur,“ segir Guðni.