Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Slökkvistöðin rafmagnslaus þegar útkall kom á Akureyri

07.01.2021 - 01:44
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Slökkviliðinu á Akureyri tókst að að ráða niðurlögum elds sem kom upp í Glerárskóla í kvöld. Rafmagn fór af stórum hluta bæjarins, þar á meðal slökkvistöðinni, eftir að eldurinn komst í spennistöð í kjallara skólans.

Grunur um að flugeldar hafi komið við sögu

Allt tiltækt slökkvilið var kallað að skólanum um klukkan hálf tólf og er enn að störfum. Að sögn Ólafs Stefánssonar slökkviliðsstjóra er verið að reykræsta húsið. Ekki vitað um eldsupptök að svo stöddu en grunur er á að flugeldar hafi komið við sögu. Allt skólahald fellur niður í skólanum á morgun.

„Það eru einhverjar fréttir af einhverjum rakettum á svæðinu en ég hef það svo sem ekki staðfest,“ segir Ólafur. Hann segir eldvarnarhólf byggingarinnar hafa haldið og eldurinn því ekki náð að breiðast mikið út. Töluverður reykur barst þó um allan skólann. 

Slökkvistöðin rafmagnslaus

Rafmagn fór af stórum hluta bæjarins eftir að eldurinn kom upp og er talið líklegt að kviknað hafi í spennistöð sem er í kjallaranum. „Það vildi þannig til að nokkrum mínútum áður en útkallið kom þá fór rafmagnið af stórum hluta bæjarins, þar á meðal slökkvistöðinni. Þannig að við þurfum að berjast við að koma bílunum út af stöðinni sem tafði okkur aðeins,“ segir Ólafur.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Allt tiltækt slökkvilið var kallað að skólanum um klukkan hálf tólf