Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Slær í brýnu á milli Trump og félaga

Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Eftir atburði gærkvöldsins við þinghúsið í Washington virðist sem fylgismenn Donalsd Trump ætli að draga í land stuðning sinn við baráttu forsetans fráfarandi í að fá niðurstöðu forsetakosninganna hnekkt. Trump gagnrýndi hugleysi Mike Pence í gær og í morgun var táknræn stund þar sem hann kvað upp staðfestingu þingsins á fjölda kjörmanna sem styðja Joe Biden.

Fram til þessa hefur Trump notið stuðnings félaga sinna í repúblikanaflokknum sem hafa lýst því yfir að þeir styðji fullyrðingar Trump þess efnis að hann hafi í raun borið sigur úr býtum í kosningunum í nóvember í fyrra. 

Í gær skoraði Trump á Mike Pence varaforseta sinn, sem situr í forsæti á fundinum í þinginu, að sjá til þess að úrslit kosningana yrðu lýst ólögleg. Pence hefur ekkert vald til þess og brást Trump illa við því og sagði hann ekki hafa hugrekki til að standa með sér. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Þetta virðist hafa skaðað samband þeirra félaga og að sögn fjölmiðla vestanhafs hefur uppsagnarbréfum rignt inn á skrifstofu forsetans frá starfsliði hans í Hvíta húsinu frá því í gærkvöld. Hvort að uppákoman þeirra á milli í gær og atburðirnir við þinghúsið eigi eftir að skaða samstarf þeirra það sem eftir lifir forsetatíðar Trumps á eftir að koma í ljós en svo virðist sem vinskapurinn standi ekki eins traustum fótum og áður. 

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings virðist hafa snúið baki við málflutningi Trumps en marka má orð hans í ræðustól öldungadeildarinnar í morgun. Þar sagði hann að engar efasemdir væru um niðurstöðu kosninganna. Þingið láti ekki undan þrýstingi frá glæpalýð og standi við stjórnarskrárvarðar skyldur sínar þjóðinni í hag. Hann sagði einnig að gangverk lýðræðisins í Bandaríkjunum hefði í gegnum tíðina haldið gangi sínum bæði á friðartímum og stríðstímum. 

„Þeir sem reyndu að rjúfa og trufla framgang lýðræðisins mistókst ætlunarverkið. Þeim mistókst að fremja valdaráð og það sýnir hversu mikilvægt  verkefnið framundan er. Þjóðin byggist einmitt á því að frjálst val kjósenda mótar stjórnmálin og örlög þjóðarinnar. Ekki ótti, ekki ofbeldi, heldur friðsamlegur og frjáls vilji meirihluta fólksins“ sagði McConnell í ræðu sinni.

Joe Biden tekur við sem Bandaríkjaforseti þann 20. janúar og  hefur Trump gefið það út að þau muni fara friðsamlega fram. Hvað næstu dagar era í skauti sér verður hins vegar að koma í ljós.