Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rólegt í Washington eftir árásina á þinghúsið í gær

Mynd: EPA-EFE / EPA
Allt er með kyrrum kjörum í Washington eftir áhlaup stuðningsmanna Trumps Bandaríkjaforseta á þinghúsið í gær þar sem fjórir létu lífið. Fáir voru á ferli í morgun, útgöngubann var í gildi í nótt. Lítið hefur enn sést til tugþúsunda stuðningsmanna forsetans sem margir hverjir sögðust vera boðberar frelsis gegn kúgun.

Mike Pence fordæmdi árásina á þinghúsið

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, var í forsæti á þingfundinum þar sem staðfest var að Joe Biden og Kamala Harris hefðu verið kjörin forseti og varaforseti Bandaríkjanna. Sá fundur hófst eftir að æstur múgur hafði verið rekinn út úr þinghúsinu. Trump forseti hefur ekki enn fordæmt árásina á þinghúsið en Pence gerði það í þinginu. Pence sagðist einnig harma manntjónið.

Schumer segir Trump bera ábyrgðina

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í Öldungadeildinni, sagði Donald Trump ábyrgan fyrir árásinni á þinghúsið. Orð hans og lygar hefðu espað múginn upp.