Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hafís í 35 mílna fjarlægð frá Vestfjörðum

07.01.2021 - 15:22
Mynd með færslu
Hafrannsóknaskip við loðnuleit í hafís á Barðagrunni 6. janúar Mynd: Sigurður Jónsson/hafro.is
Hafís hefur nálgast landið smám saman síðustu vikur. Undanfarna daga hefur ísröndin verið um 50 mílur frá Vestfjörðum en stakir jakar geta verið nær landi.

Meginísröndin færist til eftir vindáttum og á vef Veðurstofunnar sést að 3. og 4. janúar mældist ísröndin í um 50 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi þar sem hún var næst landi. Á mánudag og þriðjudag var suðvestanátt á Grænlandssundi og við það færðist ísinn nær. Vindur snerist til norðaustanáttar í gær og aftur er suðvestanátt í dag.

„Ísröndin er komin aðeins nær núna og er í um 35 til 40 mílna fjarlægð,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. miðað við spá næstu daga ætti ísinn að færast aftur í vestur og fjarlægjast landið. „Þetta er ekki mjög þykkur ís, mikið til spangir. Ísinn er að koma inn í hlýrri sjó og þá bráðnar hann eitthvað og hægir á nýmyndun,“ segir Óli. 

Eins og fram hefur komið truflar hafís loðnumælingar á Grænlandssundi en þar er nú meiri ís en verið hefur á þessum árstíma undanfarin ár. Á vef Hafrannsóknastofnunar sést vel að rannsóknaskip hefur þurft að þræða ísröndina við loðnuleit síðustu daga.