Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fordæma árasina og minna á virðingu fyrir lýðræðinu

epa08920958 German Chancellor Angela Merkel during a press conference after a coronavirus update meeting with the German state premiers, in Berlin, Germany, 05 January 2021. Germany is to extend its national shutdown due to the pandemic until 31 January.  EPA-EFE/Andreas Gora / POOL
 Mynd: EPA-EFE - DDP IMAGES POOL
Þjóðarleiðtogar og fyrrverandi Bandaríkjaforsetar fordæma framferði þeirra sem réðust inn í þinghúsið í gær. Mikilvægi þess að úrslit lýðræðislegra kosninga séu virt er flestum þeirra hugleikið.

Strax í gær, þegar hópur fólks réðist inn í þinghúsið í Washington, brugðust þjóðarleiðtogar víða um heim við atburðarásinni. 

Erna Solberg forsætisráðherra Noregs sagði gjörninginn algjörlega óásættanlega árás á lýðræðið. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði innrásina fyrirlitlega og ítrekaði í yfirlýsingu á Twitter mikilvægi þess að valdaskiptin í Hvíta húsinu yrðu friðsamleg. 

Justin Trudeu, forsætisráðherra Kanada, var á sömu nótum og sagðist dapur og hissa yfir þessum atburðum. Ofbeldi mun aldrei yfirskyggja vilja fólksins, standa þarf vörð um lýðræði í Bandaríkjunum. 

Forverarnir taka höndum saman

Allir forverar Trumps í starfi sem enn eru á lífi fordæmdu framferði mótmælendanna í gær. Eini Repúblikaninn í þeirra hópi, George W. Bush, sagði í yfirlýsingu að aðeins í bananalýðveldum mótmælti fólk niðurstöðum kosninga með þessum hætti. Svona lagað ætti sér ekki stað í lýðræðisríkjum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði efasemdarraddir um réttmæti kosningaúrslitanna hafa hrint af stað atburðarás gærkvöldsins. Með því að staðfesta úrslit kosninganna geti Bandaríkjaþing skrifað nýjan kafla í lýðræðissögu landsins. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, fordæmdi árásina á þinghúsið og sagði Frakka standa með þeim rétti Bandaríkjamanna að velja sér leiðtoga í frjálsum lýðræðiskosningum. 

Þá áréttaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, mikilvægi þess að niðurstöður lýðræðislegra kosninga væru virtar.