Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjórir látnir eftir árásina á bandaríska þinghúsið

07.01.2021 - 07:40
epa08923664 Pro-Trump protesters storm the grounds of the US Capitol, in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Various groups of Trump supporters have broken into the US Capitol and rioted as Congress prepares to meet and certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórir eru látnir, tvær konur og tveir karlar, eftir að vopnaðir stuðningsmenn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, ruddust inn í þinghúsið í Washington í gærkvöldi. Lögreglumaður skaut konu til bana og þrír létust af heilsufarsástæðum í mannmergðinni. Samkvæmt AFP-fréttastofunni var konan sem var skotin ötull stuðningsmaður forsetans.

Fjórtán lögreglumenn særðust, einn þeirra alvarlega og var fluttur á sjúkrahús. Á svæðinu fundust tvær sprengjur og bíll fullur af Molótov-sprengjum. 

epaselect epa08923666 Pro-Trump protesters storm the grounds of the US Capitol, in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Various groups of Trump supporters have broken into the US Capitol and rioted as Congress prepares to meet and certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

AFP-fréttastofan hefur eftir Robert Contee, lögreglustjóra í Washinton DC., að 52 hafi verið handteknir í tengslum við árásina, 26 í eða við þinghúsið, fyrir vopnaburð, innrás inn í bygginguna og að virða ekki útgöngubann sem tók gildi í borginni klukkan sex í gærkvöld. 

epa08923672 Pro-Trump protesters storm the grounds of the US Capitol, in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Various groups of Trump supporters have broken into the US Capitol and rioted as Congress prepares to meet and certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Borgarstjóri segir forsetann ábyrgan

Muriel Bowser, borgarstjóri Washington DC., fullyrti á blaðamannafundi í gærkvöldi að Donald Trump Bandaríkjaforseti bæri ábyrgð á óeirðunum.

epa08923518 Police respond to Pro-Trump protesters storming the US Capitol, in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Right-wing conservative groups are protesting against Congress counting the electoral college votes. Dozens of state and federal judges have shot down challenges to the 2020 presidential election, finding the accusations of fraud to be without merit. Protesters stormed the US Capitol which held the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Útgöngubann í borginni sem hefst klukkan sex að kvöldi og stendur til 6 að morgni gildir áfram í fimmtán daga, eða þar til daginn eftir að Joe Biden tekur við embætti forseta þann 20. janúar. 

Þjóðarleiðtogar fordæma árásina

Fjöldi þjóðarleiðtoga hefur fordæmt árásina, þar á meðal allir núlifandi fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna. „Atburðir dagsins eru skammarlegir, þeir eru hneisa sem skráð verður í sögubækur,“ segir Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í yfirlýsingu sem hann birti á Twitter í kvöld. 

Obama segir Trump síendurtekið hafa logið um niðurstöður forsetakosninganna, og að uppspuni hans hafi sífellt orðið óraunverulegri og sáð fræjum sundrungar í landinu. „Ofsafengnar afleiðingar þess sáum við svo í dag,“ segir Obama í yfirlýsingu sinni.

Bill Clinton, sem tók við embætti 20. janúar 1993, segir kveikjuna að atlögunni að þinghúsinu vera fjögurra ára tímabil eitraðra stjórnmála og upplýsingaóreiðu. Það hafi verið Trump og fylgismenn hans sem kveiktu neistann sem leiddi til þessarar fordæmalausu árásar á þinghúsið, stjórnarskrána og þjóðina alla. Repúblikaninn George W. Bush, sem tók við af Clinton árið 2001, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem segir að það sé aðeins í bananalýðveldum sem fólk mótmæli niðurstöðum kosninga með þeim hætti sem nú gerist í Washington, svona lagað eigi sér ekki stað í lýðræðisríkjum.

Á meðan á óeirðunum stóð birti Trump sjálfur ávarp á Twitter þar sem hann biðlaði til mótmælenda að fara heim. Hann fordæmdi aðgerðirnar þó ekki: „Farið heim, þið eruð afar sérstök. Ég elska ykkur,“ segir forsetinn. 

Demókratar krefjast embættissviptingar

Trump Bandaríkjaforseti virðist einangraður eftir atburðarás kvöldsins og næturinnar, nokkrir lykilstarfsmenn Hvíta hússins hafa sagt upp störfum, þar á meðal Robert O'Brian öryggisráðgjafi og blaðafulltrúinn Sarah Matthews. 

Þá hafa sumir af þingmönnum Demókrataflokksins krafist þess að Trump verði vikið frá störfum þegar í stað. Þingmenn Demókrataflokksins í dómsmálanefnd þingsins sendu Mike Pence varaforseta bréf í kvöld þess efnis að 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna skyldi beitt gagnvart forsetanum. Sá viðauki heimilar að forseta sé vikið frá, teljist hann af einhverjum orsökum óhæfur að gegna embætti sínu.

Í bréfinu er vísað til ræðu forsetans í gær, hún sýni að hann sé í ójafnvægi og óhæfur til að sætta sig við ósigurinn í kosningunum 3. nóvember. Ráðherrar í ríkisstjórn Donalds Trump eru sömuleiðis sagðir hafa rætt sín á milli hvort beita ætti viðaukanum.

Þingfundur hélt áfram

Eftir að lögreglan kom böndum á ástandið í þinghúsinu hélt fundur beggja deilda Bandaríkjaþings áfram þar sem þingmenn ræða atkvæði kjörmanna í forsetakosningum í nóvember. Öldungadeildin staðfesti lögmæti forsetakosninganna í Arizona- og Pennsylvaníu-ríkjum í nótt og rétt í þessu hófst sameinaður þingfundur að nýju. 

epa08924040 US Vice President Mike Pence (L, top) and House Speaker Nancy Pelosi (R, top) preside over a joint session of Congress to certify the 2020 Electoral College results after supporters of President Donald Trump stormed the Capitol earlier in the day on Capitol Hill in Washington, DC, 06 January 2021.  EPA-EFE/Erin Schaff / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL

Fyrr í nótt vísuðu báðar deildir andmælum varðandi úrslit í Arizona frá eftir langar umræður í hvorri deild fyrir sig en heimild er fyrir tveggja klukkustunda umræðu. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í deildinni, mælti fyrir þinghléi til 8. janúar en fjörugar umræður standa enn yfir í fulltrúadeildinni. Því er einsýnt að ekki tekst að staðfesta kjör nýs forseta sjötta janúar eins og lög gera ráð fyrir.