Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ákæru á hendur Jóni Baldvini vísað frá

Mynd með færslu
 Mynd:
Ákæru saksóknara á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir að hafa strokið konu utanklæða á rassi á heimili hans í Granada á Spáni 2018 var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Frávísunin er á grundvelli þess að spænska lagagreinin sem ákæruvaldið byggði á að væri sambærileg íslensku lagaákvæði almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni sé mjög frábrugðin íslenska lagaákvæðinu. 

Íslenska ríkið fer ekki með refsilögsögu í málinu. Forsenda þess að íslenskur ríkisborgari sé ákærður fyrir kynferðislega áreitni eftir íslenskum lögum er að brotið sé jafnframt refsivert í því landi sem brotið á að hafa verið framið.

„Er það mat dómsins að ákærða beri að njóta vafans um þetta og ber því að taka kröfu hans til greina og vísa málinu frá dómi,“ segir í úrskurðinum.

Ríkissjóði er gert að greiða 917.600 krónur í málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns.

Ríkissaksóknari gaf ákæruna út í júlí í fyrra. Konan kærði Jón Baldvin til lögreglunnar á Íslandi í mars. Frávísunarkrafa var tekin fyrir í nóvember.

Fréttablaðið greindi fyrst frá úrskurðinum.