Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útlendingar áhugasamir að stunda nám í atvinnuleysi

06.01.2021 - 09:55
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Mikill meirihluti þeirra sem sótt hafa um að stunda nám á fullum atvinnuleysisbótum eru erlendir atvinnuleitendur. Þeir sem hafa verið á bótum lengur en í sex mánuði gefst kostur á að setjast á skólabekk í eina námsönn. Tæplega 500 manns hafa sótt um að hefja nám á vorönn. Það eru nokkuð færri en búist var við.

Átakið Nám er tækifæri var kynnt í haust. Það felur meðal annars í sér að mögulegt er að stunda nám í eina önn annaðhvort í framhaldsskóla eða háskóla á fullum atvinnuleysisbótum. Einnig er mögulegt að sækja um símenntunarnám. Að lokinni fyrstu önninni er svo hægt að sækja um námslán. Tilboðið nær til þeirra sem hafa verið á atvinnuleysisbótum lengur en sex mánuði. Í nóvember var þessi hópur nærri 10 þúsund manns. Í haust var hópurinn upplýstur um þennan möguleika og gafst kostur á að sækja um að setjast á skólabekk. Nú fimmta janúar hafa tæplega 500 manns lýst yfir áhuga á að hefja nám. Mögulegt var að sækja um allt að 1000 skólapláss. Kemur þessi aðsókn á óvart? Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, segir að að hún hafi auðvitað viljað sjá fleiri umsóknir. Hún bendir reyndar á að líklega eigi eftir að fjölga í umsækjendahópnum.

„En skýringarnar gætu meðal annars verið þær að sumt nám er ekki hægt að hefja á vorin. Ég geri ráð fyrir að næsta haust verði hópurinn stærri. Síðan hefur trúlega haft áhrif á fólk að nám fram til þessa hefur meira og minna verið fjarnám sem getur verið veruleg áskorun fyrir marga. Það gæti líka verið skýring,“ segir Hrafnhildur.

Erlendir atvinnuleitendur áhugasamir

Það vekur athygli en kemur kannski ekki á óvart að tveir þriðju þeirra sem sækja um þátttöku í Nám er tækifæri eru erlendir atvinnuleitendur eða rösklega 300 manns. Áhugi þeirra beinist fyrst og fremst að því að ná tökum á íslensku. 30 sækja til dæmis um aðfaranám á Bifröst með áherslu á íslensku og yfir 40 um nám á íslenskubraut í Fjölbraut í Breiðholti. Flestir eða 250 sækja um vottaðar námsleiðir sem símenntunarmiðstöðvar bjóða upp á. Hrafnhildur segir ánægjulegt hversu margir útlendingar sækja um en hún hefði viljað sjá meiri fjölbreytni í valkostum þessa hóps.

Ákveðin vonbrigði

Samkvæmt reglugerð um Nám er tækifæri er námsvalinu stýrt. Miðað er við að valið sé nám þar sem atvinnumöguleikar eru fyrir hendi og henta atvinnulífinu. Rúmlega 150 íslenskir atvinnuleitendur eða þeir sem geta nýtt sér nám á íslensku hafa sótt um. Um 90 í framhaldsskóla, 54 í háskóla og 10 um framhaldsfræðslu eða aðfaranám. Hrafnhildur segir það ákveðin vonbrigði hversu fáir sækja um.

„Já, ég hefði vonað að við sæjum fleiri. Ég verð að játa að ef þetta verður niðurstaðan eru það ákveðin vonbrigði.“

Átakið kynnt á vordögum

Átakið miðast við að hægt sé að stunda nám á fullum bótum í eina önn. Þessi kostur verður í boði líka í haust og vorið 2022. En hvert verður framhaldið? Á Hrafnhildur von á að fleiri sæki um í haust? Hún segir að það fari eftir því hvernig atvinnuástandið þróast. Hún býst við að ákveðinn hópur ætli sér að komast í fyrra starf.

„Við erum auðvitað að vona að fólk nýti sér þetta tækifæri á meðan það er að bíða eftir því að komast aftur í sína vinnu. Vera virkur á meðan og nýta þennan tíma til hæfnisuppbyggingar,“ segir Hrafnhildur. Stefnt sé að því að kynna átakið á vormánuðum.

Það er þó ekki aðeins Nám er tækifæri sem stendur atvinnulausum til boða. Samkvæmt samantekt Vinnumálastofnunar voru tæplega 2500 manns að nýta sér ýmiss konar virkniúrræði í nóvember. Nú er t.d. mögulegt að vera í 40% námi samhliða að vera á atvinnuleysisbótum. Um 660 hafa nýtt sér þetta samkvæmt tölunum frá því í nóvember og sóttu námskeið bæði í framhaldsskólum og háskólum. Og svipaður fjöldi sótti önnur námskeið, t.d. tungumálanámskeið eða starfstengd námskeið.

„Mér finnst ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir að nám hafi meira og minna verið í fjarnámi að þá er engu að síður umtalsverður fjöldi sem er að nýta tímann til að bæta við sig þekkingu og færni.“