Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mygla í leikskólanum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

06.01.2021 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Mygla greindist í leikskólanum Leikholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Flytja þarf börn úr húsinu og meðal þess sem er til skoðunar er að færa leikskólann á ferðamannalaust hótel í sveitinni.

Björgvin Skafti Bjarnason oddviti staðfestir myglugreininguna í samtali við fréttastofu. Hann segir að verkfræðistofan Mannvit hafi greint mygluna rétt fyrir jólin og þá þegar hafi verið hafist handa við að laga drenlagnir í kringum húsið. 

Leikskólinn er eini leikskóli sveitarfélagsins og eru í honum 35 börn. Leikskólinn er í Brautarholti og byggingin er tvískipt. Eldri hlutinn er byggður árið 1933 og var grunnskóli Skeiðahrepps, Brautarholtsskóli, þar til húsa allt til ársins 2002 þegar Þjórsárskóli var stofnaður við sameiningu sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þá var grunnskólinn fluttur í Árnes og leikskólinn á móti í Brautarholt. Nýrri hlutinn er byggður árið 2001 í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2000, en gamli salur Brautarholtsskóla skemmdist illa í skjálftanum. 

Myglan er að sögn Skafta meiri og sýnilegri í eldri hlutanum en í nýja hlutanum hefur þak einnig lekið. Eftir að niðurstaða fékkst úr mælingu rétt fyrir jól var þegar byrjað að grafa frá eldri hluta hússins til að laga drenlagnir í kringum það , en þær voru orðnar lélegar, að hans sögn. Skafti segir að það sé einnig búið að stúka af þann hluta hússins sem er verst leikinn. Þar hafi starfsmenn verið með kaffistofu. Ekki sé talið hættulegt að vera í húsinu en um leið og farið verður að hreyfa við byggingarefni sé viðbúið að ekki sé verandi í húsinu. 

Elín Anna Lárusdóttir, leikskólastjóri Leikholts segir að starfsmenn í leikskólanum hafi fundið fyrir einkennum vegna myglu í skólanum. Sextán starfsmenn vinna í skólanum og hefur um helmingur þeirra fundið fyrir einkennum vegna myglu. Einkennin eru misslæm, en að minnsta kosti einn starfsmaður er frá vinnu af þessum sökum. Starfsmenn finna fyrir hæsi, bólgum í kinnholum, öndunarfæraeinkennum og kvefi.  

Vandamálið segir hún að sé ekki nýtt af nálinni. Grunur hafi verið lengi um að mygla væri í húsinu en engar mælingar hafi verið gerðar fyrr en nú í vetur. Veikindi starfsmanna hafi aldrei verið eins tíð og í vetur, en veikindi meðal barna hafi verið óvenjulítil og því ekki grunur um að þau finni fyrir einkennum vegna myglunnar. Hún vonar að hægt verði að flytja skólastarf sem fyrst úr húsnæðinu, vonandi um helgina.  

Til skoðunar að setja börnin á hótel

Einn af möguleikunum sem er til skoðunar hjá sveitarfélaginu er að taka Hótel Heklu á leigu, en það stendur líkt og flest önnur hótel landsins meira og minna autt þessa dagana. Hótelið er um fjóra kílómetra frá leikskólanum. Annar möguleiki sem er til skoðunar er að flytja leikskólastarfið í félagsheimilið í Árnesi. Þar hafa grunnskólabörn í Þjórsárskóla stundað íþróttir og þar er einnig mötuneyti þeirra. 

Verkfræðingar á vegum Mannvits voru við mælingar í dag og voru sýni tekin af fleiri stöðum í húsinu. Skólanefnd sveitarfélagsins fundar á morgun og standa vonir til þess að þar verði tekin ákvörðun um framhaldið. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV