Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lýsa Warnock sigurvegara í Georgíu

06.01.2021 - 07:51
epa08920726 Democratic Senate candidate Rev. Raphael Warnock views the Elizabeth Porter Park mural showing the history of Marietta during a canvassing event in Marietta, Georgia, USA, 05 January 2021. Republican Senator David Perdue is running against Democrat Jon Ossoff and Republican Senator Kelly Loeffler is running against Democrat Reverend Raphael Warnock in the 05 January 2021 runoff election.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sumir af fréttamiðlunum vestanhafs, þar á meðal New York Times og AP-fréttastofan, hafa nú þegar lýst Demókratann Raphael Warnock sigurvegara í kosningum um öldungadeildarþingsæti í Georgíu sem fóru fram í gær. Til þess að Demókratar nái meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings þarf frambjóðandinn Jon Ossof einnig að hafa betur gegn Repúblikananum David Perdue.

Í gær var kosið um tvö öldungadeildarþingsæti í Georgíu. Afar mjótt er á munum og búið að telja um 98 prósent atkvæða.

Nú virðist Demókratinn Raphael Warnock hafa haft betur gegn Repúblikananum Kelly Loeffler, 50,5 prósent gegn 49,5 samkvæmt New York Times.

Ossof bjartsýnn

Enn er óljóst hvor frambjóðendanna um hitt sætið nær kjöri, Demókratinn Jon Ossof eða Repúblikaninn David Perdue, en þegar gert var hlé á talningu hafði Ossof mjög naumt forskot; 50,11 prósent atkvæða gegn 49,89 prósent.

Talsmaður kosningateymis Ossofs sagði í nótt að teymið gerði sér miklar vonir um sigur, enda ætti aðallega eftir að telja atkvæði á svæðum þar sem Ossof er spáð sigri.  

Fyrr í morgun var greint frá því að Warnock hefði sjálfur lýst yfir sigri en Loeffler hefur ekki lýst sig sigraða. 

Demókratar hafa ekki átt öldungadeildarþingmann í Georgíu í tæp tuttugu ár, en hafa nú gert sér auknar vonir vegna naums sigurs Joe Biden í ríkinu í forsetakosningunum - sigurs sem Donald Trump hefur beitt öllum brögðum til að snúa. Báðir frambjóðendur Repúblikana styðja viðleitni Trumps um að ógilda úrslit forsetakosninganna.