Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Lögreglumaður sem skaut Blake verður ekki ákærður
06.01.2021 - 01:16
Enginn verður ákærður eftir að lögreglumaður skaut Jacob Blake nokkrum skotum í bakið 23. ágúst síðastliðinn. Blake er lamaður fyrir neðan mitti.
Michael Graveley umdæmissaksóknari í Kenosha þar sem atvikið átti sér stað, segir niðurstöðuna byggja á gildandi lögum um skotvopnanotkun lögreglumanna.
Það gæti reynst þrautin þyngri fyrir sækjendur í málinu að sanna að lögreglumaðurinn hafi ekki skotið Blake í sjálfsvörn. Atvikið hellti olíu á eld víðtækra mótmæla vegna fjölda svipaðra mála, þar sem lögreglumenn hafa skotið þeldökkt fólk, eða valdið dauða þess með öðrum hætti.
Myndskeið sýnir lögreglumann skjóta Blake nokkrum skotum í bakið í þann mund er hann sest inn í bíl sinn, þar sem þrjú börn hans sitja í aftursæti. Gravely saksóknari segir að Blake verði ekki ákærður fyrir nokkuð heldur, en lögreglumennirnir hugðust handtaka hann í aðdraganda þess að hann var skotinn.