Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kim segir síðustu ár hafa verið erfið

06.01.2021 - 09:39
epa08921305 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows Kim Jong-un (C), Leader of the Democratic People's Republic of Korea, speaking during the 8th Congress of the Workers' Part of Korea opening ceremony in Pyongyang, North Korea, 05 January 2021 (issued 06 January 2021).  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY  EDITORIAL USE ONLY
Frá landsþingi Verkamannaflokks Norður-Kóreu í gær. Mynd: EPA-EFE - KCNA
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, viðurkenndi á landsþingi Verkamannaflokks landsins að síðasta efnahagsáætlun stjórnarinnar í Pjongjang hefði ekki gengið upp. Áætlunin var lögð á hilluna á nýliðnu ári, en Kim sagði að nær ekkert markmiða hennar hafa náðst. 

Við þingsetningu í gær sagði leiðtoginn fordæmalaust ástand hafa ríkt í Norður-Kóreu undanfarin fimm ár sem væru þau langverstu í sögu landsins. Landsþingsfulltrúar myndu skoða hvað hefði farið úrskeiðis og draga lærdóm af þeim mistökum sem gerð hefðu verið. Hann fór þó ekki nánar út í þá sálma og minntist hvorki á Suður-Kóreu né Bandaríkin í setningarræðunni.

Um sjö þúsund manns sitja landsþing Verkamannaflokksins, en það var síðast kallað saman árið 2016 og hefur einungis átta sinnum verið kallað saman frá upphafi.

Sérfræðingar telja að á þinginu verði einkum fjallað um innanlandsmál og að áhersla verði lögð á sjálfbærni. Þá verði hugsanlega kynnt ný fimm ára efnahagsáætlun.

Myndir frá þinginu hafa vakið athygli í ljósi COVID-19 heimsfaraldursins þar sem enginn fulltrúa sést með grímur fyrir andliti. Ráðamenn í Pjongjang hafa staðhæft að engin slík tilfelli hafi greinst í Norður-Kóreu, en landið er nú einangraðra en nokkru sinni.

Til marks um það hafa viðskipti við Kína undanfarið ár ekki verið nema brot af því sem verið hefur að jafnaði. Þá hafa mörg ríki lokað sendiráðum sínum í Pjongjang eða halda starfsemi þar í lágmarki.