Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundruð fara í fullt nám á atvinnuleyisbótum

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi / RÚV
Atvinnulausir geta nú í fyrsta sinn sótt nám í háskóla og framhaldsskóla og verið á fullum bótum á meðan. 500 sóttu um. Mikil aðsókn var í íslensku í Fjölbraut í Breiðholti. 

Meiri áhugi hjá útlendingum

Nám er tækifæri heitir átakið og verður í boði þessa önn og svo haustönn og vorönn næsta skólaár. 

„Við vorum að gera ráð fyrir því að þetta gætu verið allt að 3000 atvinnuleitendur sem að gætu nýtt sér þetta tilboð,“ segir Hrafnhildur Tómasdóttir sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í hálft ár eða lengur getið valið nám í háskóla, framhaldsskóla eða framhaldsfræðslu og það er helst hugsað fyrir iðn-, starfs- og tækninám. En þeir sem eru með annað móðurmál en íslensku sækja líka mikið í íslenskunám. 

„Við hefðum viljað sjá meiri fjölbreytni til þess hóps en engu að síður þá hefur hann tekið mjög vel þessum skilaboðum frá okkur. Þannig að það eru um 300 af þessum 500 sem hafa skráð sig núna til náms eru úr þeim hópi.“

Erlendir atvinnuleitendur hafa sem sagt sótt hlutfallslega meira í þetta nám en Íslendingar því þeir erlendu eru 40% þeirra tíu þúsund sem hafa verið atvinnulausir lengi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Hrafnhildur Tómasdóttir.

Ótrúlega fjölbreyttur hópur valdi íslensku

Viðtökurnar voru sérlega góðar í FB sem ákvað fyrir stuttu á bjóða upp á íslenskunám: 

„Þetta er sem sagt svona stíft nám, þau eru í þrjá tíma á dag að læra íslensku. Og það voru hátt í 40 sem sóttu um en því miður bara 20 pláss,“ segir Brynja Stefánsdóttir sviðstjóri bóknáms í Fjölbrautaskólannum í Breiðholti.

Af hvaða þjóðerni er fólkið sem kemur í námið?

„Veistu það að það er bara það eru svo rosalega margar, ég held að það séu varla tveir frá sama landinu. En jú það er Pólland, Lettland, það er Portúgal, það er Spánn, það er ítalía, það eru Bandaríkin, það er Kína, Afganistan, ég bara man ekki alla.“

Grunnurinn er ólíkur, sumir eru með doktorspróf, aðrir með stutta skólagöngu eða hafa lært annað stafróf en latneskt. 

„Þetta er mjög spennandi verkefni. Og hvenær byrjar? Við erum í gær og dag með viðtöl við hvern og einn og byrjum á morgun.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Brynja Stefánsdóttir.