Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hafa rætt um að aðstoða við COVID-gjörgæslumeðferð Svía

epa08809869 A sign reminding people to keep a distance at the Central station in Stockholm, Sweden, 09 November 2020. The Swedish Public Health Agency has decided on stricter advice for, among others, region Stockholm in order to slow down the spread of Covid-19 corona virus SARS CoV-2.  EPA-EFE/Amir Nabizadeh SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Óformlegar viðræður hafa verið á milli Svíþjóðar og hinna Norðurlandanna, þar á meðal Íslands, um að löndin aðstoði Svía við gjörgæslumeðferð COVID-19 sjúklinga verði þess þörf. Gjörgæsludeildir á flestum spítölum í Svíþjóð eru fullar vegna mikillar útbreiðslu sjúkdómsins þar í landi.

Vettvangur þessarar umræðu hefur verið  innan Svalbarðahópsins sem er norrænn viðbúnaðarhópur á sviði heilbrigðismála. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítalans, er annar tveggja fulltrúa Íslands í Svalbarðahópnum.

„Þetta hefur verið rætt, en ekki með formlegum hætti. Engin formleg beiðni hefur borist frá Svíum um að hin Norðurlöndin taki við gjörgæslusjúklingum. Kæmi til þess, þá væri þetta að mörgu leyti flókið verkefni fyrir okkur á Íslandi meðal annars með tilliti til fjarlægðar. Við erum langt frá, þannig að líklegt er að ef Svíar færu formlega fram á aðstoð sem þessa að Danir og Norðmenn myndu frekar hlaupa undir bagga,“ segir Guðlaug Rakel.

Svalbarðahópurinn er byggður á Norræna samningnum um heilbrigðisviðbúnað, sem var undirritaður árið 2002 og starfar undir Norrænu ráðherranefndinni. Í hópnum sitja fulltrúar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands og markmið hans er að stuðla að samvinnu milli Norðurlandanna vegna undirbúnings og þróunar á heilbrigðisviðbúnaði og viðbragða við hættuástandi og hamförum.

Guðlaug Rakel segir að á vettvangi Svalbarðahópsins hafi verið samin viðbragðsáætlun sem hægt væri að virkja með skömmum fyrirvara, þurfi eitthvert landanna í hópnum aðstoð hinna. Spurð hvort rætt hafi verið um annars konar aðstoð á milli landanna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn segir hún að rætt hafi verið um mönnun á heilbrigðisstofnunum. 

„Það er mjög mismunandi hvernig þjóðirnar eru staddar varðandi mönnun gjörgæsludeildanna og við höfum rætt um flutning starfsfólks á milli landa, gerist þess þörf. En það hefur heldur ekki verið með formlegum hætti og ekkert landanna hefur farið fram á það frá hinum löndunum,“ segir Guðlaug Rakel.