Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjöldahandtökur í Hong Kong

06.01.2021 - 01:36
epa08248145 People wear face masks in Mongkok, Hong Kong, China, 25 February 2020 (issued 26 February 2020). Hong Kong has gone from invoking a colonial-era Emergency Regulations Ordinance to implement the Prohibition on Face Covering Regulation (PFCR), an anti-mask law in response to the ongoing protests of 2019, to a city where almost everybody wears face masks, fearing the Covid-19 epidemic.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Allt að fimmtíu sem hafa verið áberandi í mótmælum í Hong Kong hafa verið handtekin.  Handtökurnar byggja á öryggislögum þeim sem Kínverjar settu síðasta sumar.

Þetta er viðamesta aðgerð gegn því fólki í Hong Kong sem andæfir Kínastjórn frá því svæðið færðist undir stjórn Kínverja. Fram kemur í samfélagsmiðlafærslum stjórnarandstæðinga að hið minnsta tuttugu og einn hafi verið handtekinn.

AFP fréttastofan hefur eftir ónafngreindum heimildamönnum innan lögreglunnar að fjöldinn sé nær fimmtíu. Meðal þeirra handteknu eru þingmennirnir fyrrverandi James To, Andrew Wan og Lam Cheuk Ting auk fjölda ungs andófsfólks.

Þar má nefna Gwyneth Ho fyrrverandi blaðamann og Tiffany Yuen. Samstarfsfólks Joshua Wong, eins helsta leiðtoga mótmælendi í Hong Kong, sem nú situr í fangelsi skrifaði á opinbera Facebook-síðu hans að leitað hefði verið í íbúð hans.

Lögregla hefur ekki viljað gefa upp ástæður handtakanna né hversu margir séu í haldi. Talsmenn mótmælenda segja handtökurnar tengjast óopinberum forkosningum lýðræðisflokkanna í Hong Kong í sumar.

Þær voru haldnar í aðdraganda fyrirhugaðra þingkosninga sem voru afboðaðar. Um 600 þúsund greiddu atkvæði í forkosningunum sem yfirvöld í Peking fullyrtu að væru niðurrifsstarfssemi sem bryti í bága við öryggislögin.