Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm ára dómi fyrir fjórar nauðganir áfrýjað

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson sem var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum sem voru í meðferð á nuddstofu hans hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar. Hann dæmdur til að greiða konunum samanlagt 4,3 milljónir króna í miskabætur.

Ellefu konur lögðu fram kæru á hendur Jóhannesi Tryggva árið 2018 fyrir kynferðisbrot. Sjö málanna voru felld niður.Ákært var fyrir fjórar nauðganir í þessu máli og samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í dag telst maðurinn sekur í þeim öllum.  

Ákæran á hendur Jóhannesi Tryggva var gefin út í maí á síðasta ári fyrir nauðgun, þegar hann hafði við konurnar kynferðismök önnur en samræði á nuddstofu sinni þar sem þær voru til meðferðar við ýmsum verkjum, meðal annars í baki, ökl og mjöðm á tímabilinu frá árinu 2009  til 2015. Jóhannes Tryggvi neitaði sök, en dómurinn mat framburð kvennanna trúverðugan.

Dómurinn var fjölskipaður. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að Jóhannes Tryggvi hefur ekki gerst áður sekur um refsiverða háttsemi sem hér skipti máli og að langt var um liðið frá því að brotin voru framin. Hins vegar hafi verið litið til þess að hann var ákærður fyrir alvarleg kynferðisbrot, hann hafi byggt upp meðferðartraust hjá honum og þær verið grandalausar. Niðurstaðan var því fimm ára fangelsi og til að greiða þeim miskabætur frá einni upp í eina komma átta milljónir, samanlagt 4,3 milljónir.  Konurnar höfðu krafist 2,5 milljóna hver eða alls 10 milljóna. Auk þess var Jóhannes Tryggvi dæmdur til að greiða útlagðan sakarkostnað, réttargæslukostnað og málsvarnarlaun alls liðlega 14.3 milljónir króna.

Dagmar Ösp Véstreinsdóttir aðstoðarsaksóknari segir niðurstöðu dómsins í samræmi við það sem hún bjóst við þegar fréttastofan ræddi við hana strax að lokinni dómsuppkvaðningu..
„Krafa ákæruvaldsins var nokkuð á sama reiki og þetta.“
Ef má orða það þannig, ertu þá sátt við niðurstöðuna?
„Ég á eftir að lesa dóminn en ég tel að niðurstaðan sé ekki langt frá kröfum ákæruvaldsins.“

Steinbergur Finnbogason verjandi Jóhannesar Tryggva var ósáttur við niðurstöðuna, strax eftir að dómur féll.

„Þessi niðurstaða er náttúrlega mikil vonbrigði fyrir umbjóðanda minn og kemur mjög á óvart að sakfellt sé í öllum þessum fjórum  ákæruliðum.“

Steinbergur segir að málinu hafi verið áfrýjað til Landsréttar strax við dómsuppkvaðningu, þar sem hann hafi fulla trú á að önnur niðurstaða fáist. Fréttablaðið fjallaði í síðustu viku um að þriðjungi kynferðsbrotadóma héraðsdóms á nýliðnu ári  væri snúið við í Landsrétti. Hann var ekki búinn að lesa dóminn til fullnustu þegar fréttastofan ræddi við hann.

„Ég vona svo sannarlega að þessi niðurstaða dómsins sé byggða á lögfræði en ekki þeirri pressu í samfélaginu að fá sakfellingar í málum sem þessum. Í mínum huga þá snýst þetta mál um sönnun og ég tel að það hafi ekki nein sönnunargögn verið færð fram í þessu máli og þar af leiðandi sé þetta svokallað orð gegn orði og sakborningur ekki verið látinn njóta vafans eins og 
hann þó á að njóta.“