Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Árið 2020 í erlendri tónlist

Mynd: Republic Records / Evermore

Árið 2020 í erlendri tónlist

06.01.2021 - 15:50

Höfundar

Þrátt fyrir allt sem gekk á á árinu sem var að líða hefur tónlistarárið verið nokkuð gott þrátt fyrir tónleika og viðburðaleysi. Það hefur að minnsta kosti komið út meira magn af tónlist en nokkurn tíma áður, hefur maður á tilfinningunni. Gæðin virðast líka vera til staðar og popparar hafa eitt og annað að segja. Þátturinn um tónlistarárið 2020 var á dagskrá á nýársdag á Rás 2.

Janúar

Tónlistarárið 2020 byrjaði fyrir alvöru með því að Billie Eilish ryksugaði upp Grammy-verðlaunin, fyrir plötu ársins When We All Fall Asleep, Where Do We Go og Bad Guy var valið lag ársins 2019. Hún var einnig kosin besti nýliðinn.

Annar listamaður sem var áberandi var kanadíski tónlistarmaðurinn Weeknd sem gaf út Blinding Lights í lok nóvember. Lagið fór á toppinn í tuttugu og fjórum löndum og sat á toppi Billboard Hot 100 í rúman mánuð, í Þýskalandi í 10 vikur, Bretlandi í 8 vikur, Ástralíu og Kanada í 11 vikur sem nægði til þess að gera Blinding Lights að vinsælasta og stærsta singul sögunnar til þessa.

Áhugaverðar og vinsælar plötur sem komu út í janúar voru meðal annars plötur Mac Miller – Circles, Georgia – Seeking Thrills, J Hus – Big Conspiracy og fyrsta plata Bonny Light Horseman sem var samnefnd sveitinni.


Febrúar

Febrúarmánuður bauð upp á ágætisútgáfu og þar má helst nefna plötur Soccer Mommy – Color Theory, Tame Impala – The Slow Rush, Grimes – Miss Anthropocene, Denzel Curry/Kenny Beats – Unlocked og Caribou sendi frá sér Suddenly. Í poppinu réð Dua Lipa því sem hún vildi með lögunum Don’t Stop Now og Physical.

Um miðjan mánuðinn komu síðan fréttir af því að Andrew Weatherall hefði látist en hann var mikill frumkvöðull í elektrónískri tónlist. Andy var kannski þekktastur sem remix-meistari en hann gerði meðal annars klúbbmixið af Hallelujah með Happy Mondays og fjölda annara endurhljóðblandana fyrir New Order, Björk, Orb og My Bloody Valentine. Auk þess var hann upptökustjóri á meistarastikki Primal Scream Loaded og Beth Orton-plötunni Trailer park, ásamt því að vera með hljómsveitirnar Sabres of Paradise og Two Lone Swordsmen.


Mars

Stærstu plöturnar sem komu út í mars voru án nokkurs vafa plötur Dua Lipa – Future Nostalgia og Weeknd – After Hours en lög af þeim röðuðu sér á vinsældarlista. Aðrar plötur sem er bráðnauðsynlegt að minnast á eru plötur Waxahatchee – Saint Cloud, Four Tet – Sixteen Oceans, Baxter Dury – Night Chancers, Porridge Radio – Every Bad.


Apríl

Apríl var góður fyrir Bob Dylan en þá fór lag hans Murder Most Foul á topp Billboard Hot 100-listans og þó ótrúlegt sé þá er það fyrsta lagið sem meistarinn setur á toppinn á þeim lista sem hann flytur sjálfur.

Þrír frekar þekktir tónlistarmenn létust úr COVID-19 í apríl en það voru John Prine, margverðlaunaði lagahöfundurinn Adam Schlesinger úr Fountains of Wayne og Allan Merrill sem samdi I Love Rock n Roll með Joan Jett.

Markverðar útgáfur í apríl eru síðan uppáhald gagnrýnenda á árinu Fetch the Boltcutters með Fiona Apple, Shortly After Take Off með BC Camplight, Yves Tumor – Heaven To a Tortured Mind og Thunder Cat – It Is What It Is.


Maí

Maí byrjar með látum á því að Madonna tilkynnir að hún sé með kórónuveiruna en það er ekki eina fréttinn úr tónlistinni því Grimes og Elon Musk stela senunni með því að nefna barn sitt framandi nafni sem ritað er með rómverskum tölustöfum og auk þess týnir Rihanna nýju plötunni sinni sem átti að koma út í ár.

2020 heldur síðan áfram að taka frá okkur risa úr poppsögunni þegar raftónlistar kóngurinn Florian Schneider úr Kraftwerk fellur frá 73 ára og einn af upphafsmönnum rokksins Little Richard deyr í Nashville úr beinkrabbameini.

Í útgáfunni rísa hæst plötur Perfume Genius – Set My Heart on Fire Immidiatly, Moses Sumney – Græ, Freddie Gibbs – Alfredo og systurnar úr hljómsveitinn Haim eiga risasmellinn Don’t Wanna og Phoebe Bridgers sendir frá sér plötuna Punisher sem fær frábæra dóma.


Júní

Fyrrverandi Gap starfsmaðurinn Kayne West gerði risasamning við sinn fyrrum atvinnurekanda á unglingsárunum þegar hann skrifaði undir samning um samstarf til 10 ára við tuskurisann og fatamerki Kanye Yeezy. Martin gítar Kurt Cobain sem hann spilaði á MTV Unplugged á árinu 1993 var seldur á uppboði og fór á 6 milljón dollara.

Meðal þeirra sem kvöddu okkur í júní voru Bonnie Pointer úr Pointer Systrum, daman Vera Lynn sem söng Well Meet Again, afríski tónlistarmaðuinn Mory Kante og hljómborðsleikari Stranglers Dave Greenfield.

Í útgáfunni voru plötur Bob Dylan – Rough and Rowdy Ways, Phoebe Bridgers – Punisher, Run the Jewels RTJ4, Haim – Women In Music Pt III, Neil Young - Homegrown og Nadine Shah – Kitchen Sink þær feitustu. En vinsælustu lögin voru frá Lady Gaga og Arianna Grande – Rain on Me, Regard & Raye - Secrets og auðvitað Blinding Lights.


Júlí

Kanye var bara rétt að komast í stuð í júní og blómstraði í ruglinu í júlí þar sem hann hafði allt á hornum sér, meira að segja Kim og tengdó. En það var Taylor Swift sem að stal öllum stærstu fyrirsögnum með því að tilkynna að hún hefði í leynd verið að vinna að nýrri plötu. Sú sló heldur betur í gegn og heitir Folklore enda folk-plata unninn af Taylor og heitustu nöfnum indí-bransans á undanförnum árum.

Kántrísöngvarinn Charlie Daniels fór til feðra sinna í júlí en hann er þekktastur fyrir lag sitt Devil Went Down To Georgia. Það gerði líka konungur spaggettí-vestrana Ennio Morricone og stofnandi Fleetwood Mac - Peter Green.

En það voru fleiri en Taylor Swift sem gáfu út góðar plötur í júlí; Fontaines DC sendu frá sér A Heroes Death og Protomartyr -Ultimate Success Today. Öllum að óvörum sendi síðan formaður Pulp, Jarvis Cocker, frá sér dansvæna smelli undir nafninu Jarv is á plötunni Beyond Pale og á Hot 100-listanum áttu Da Baby og Roddy Rich stærsta smellinn með laginu Rockstar.


Ágúst

Taylor Swift og Cardigan var fyrsta topplag ágústmánaðar í Bandaríkjunum en lagið sem stal öllum fyrirsögnum var WAP eða Wet Ass Pussy flutt af Cardi B og Megan Thee Stallion. Lagið var mjög umdeilt sem er kannski ekkert sérstaklega skrítið en textinn var sá vinsælasti til að fletta upp í leitarvél Google á árinu auk þess sem flestir miðlar sem fjalla um tónlist hafa valið það sem lag ársins.

Það voru dansvænar plötur sem voru þær mest áberandi hjá tónlistarnördum og þótti plata Kelly Lee Owens – Inner Song frábær og Disclosure áttu nokkrar neglur á plötu sinni Energy.

Platan Abbey Road með Bítlunum varð 50 ára eins og Woodstock-hippafestivalið sem ætlaði að halda stórtónleika í ár en þurfti eins og svo margir að fresta vegna COVID. R Kelly, Chris Brown, Kate Perry og Placido Domingo áttu síðan flestar neikvæðar fyrirsagnir í dagblöðunum vegna kynferðislegrar áreitni.


September

Í byrjun september héldu stjörnurnar áfram að hrynja niður. Einn af stofnendum Kool and the Gang, saxafónleikarinn og söngvarinn Ronald Bell féll frá og í kjölfarið Frederick Hibbert eða Toots úr Toots and the Maythals. Framlag hans til tónlistarsögunnar er einstakt og ekki ofsögum sagt að hann hafi breytt poppsögunni með sínu framlagi til reggí-tónlistar og rokkmenningar. Úr danssenunni var kvaddur plötusnúðurinn og hústónlistar-legendið Eric Morillo sem er kannski þekktastur fyrir slagara Reel 2 Real.

Í útgáfunni var allt í gangi og öllum að óvörum fór postpönksveitin Idles á toppinn í Bretlandi með plötu sína Ultra Mono. Fleet Foxes sendu frá sér plötuna Shore sem fékk frábæra dóma eins og plata Sufjan Stevens the Ascension. Gamlir sleðar eins og Flaming Lips, Deftones og Public Enemy áttu líka góða spretti sem fóru reyndar misvel í tónlistarblaðamenn. Leynihljómsveitin Sault sendi líka frá sér í september plötuna Untitled (Rise) sem fékk fullt hús hjá Guardian, NME og BBC 6 Music.


Október

Gorillaz byrjuðu árið með látum þegar lagið Momentary Bliss sem þeir gerðu með Slowthai og Slaves kom út í janúar. Í október kom síðan loks út platan Song Machine, Season One: Strange Times og fékk frábæra dóma þrátt fyrir mikla eftirvæntingu vegna frábærra singla með gestum eins og Octavian, Elton John, Fatouma Diawara, Robert Smith og Beck. Írska stuðbomban Roisyn Murphy sendi líka frá sér stórkostlega plötu Roisin Machine og aðrir sem er nauðsynlegt að minnast á eru Bruce Springsteen - Letter To You, Busta Rhymes - Exstiction Level Event 2 og kólumbíska tónlistarkonan Ela Minus - Acts of Rebellion.

Stærsta dauðsfall mánaðarins var fráfall gítarleikarans Eddie Van Halen sem dó eftir baráttu við krabbamein 65 ára að aldri og fannst nú mörgum nóg um dauðsföll á þessu leiðindaári.


Nóvember

Í nóvember koma Grammy-tilnefningarnar og að venju voru þær umdeildar en sálar- og R n B-divan Beyonce fékk flestar í ár eða níu talsins en Taylor Swift, Dua Lipa og Roddy Rich fengu sex tilnefningar. Það vakti athygli að vinsælasta lag heimsins í ár Blinding Lights fékk ekki útnefningu frekar en plata Weeknd - After Hours sem hefur fengið mikið lof.

Í útgáfunni reis AC/DC flokkurinn upp frá dauðum og sannaði með nýjum slagara að það er ekkert heimilislegra en þeir. Auk þess gaf diskódrottingin Kylie Minouge út plötuna Disco – en ekki hvað - og Miley Cyrus sendi frá sér Plastic Hearts sem hefur fengið fína dóma auk þess sem okkar Ólafur Arnalds og plata hans some kind of peace keppti í úrvalsdeildinni um efstu sætin á breska breiðskífulistanum.


Desember

Eins og við var að búast stal Mariah Carey fyrirsögnunum í jólamánuðnum með því að fara þúsundasta jólamánuðinn í röð á topp Billboard Hot 100-listans með jólasmellinn sinn All I Want for Christmas Is You. Taylor Swift sá að þetta gekk ekki og sendi frá sér plötuna Evermore í snatri sem fór að sjálfsögðu beint á toppinn eins og lagið Willow.

Bob Dylan komst líka í fréttirnar með því að selja réttinn á catalognum sínum fyrir 300 milljónir dollara, en að öðru leyti fór mánuðurinn í uppgjör hjá flestum músíknördum rétt eins og venjulega.