Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vænta strangra sóttvarnarráðstafana áfram í Þýskalandi

epaselect epa08793358 German Chancellor Angela Merkel leaves after a press conference after the meeting of the Corona Cabinet in Berlin, Germany, 02 November 2020. Nationwide restrictions, such as the closure of bars and restaurants for one month starting 02 November, have been announced on 28 October due to an increasing number of cases of the pandemic COVID-19 disease caused by the coronavirus SARS-CoV-2.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Búist er við að stjórnvöld í Þýskalandi framlengi strangar sóttvarnarreglur í landinu sem renna á út 10. janúar næstkomandi. Angela Merkel kanslari fundar með forsætisráðherrum allra sambandsríkjanna sextán síðar í dag, sem hafa sent skýr skilaboð um vilja til að áfram gildi strangar reglur um samkomur fólks.

Líklegt er talið að gildandi reglur verði látnar gilda til mánaðamóta, hið minnsta. Fjöldi látinna á einum sólarhring af völdum COVID-19 fór í fyrsta sinn yfir eitt þúsund 30. desember síðastliðinn sem jók þrýsting á stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að hindra útbreiðslu veirunnar enn frekar.

Nú hafa ríflega 34 þúsund látist af völdum sjúkdómsins í landinu. Jens Spahn heilbrigðisráðherra segir nauðsynlegt að viðhalda ströngum sóttvarnaraðgerðum enda sé smitstuðullinn í landinu hár.

Michael Kretschmer, forsætisráðherra Saxlands þar sem ástandið er sýnu verst, segir áframhaldandi útgöngubann óumflýjanlegt. Samkvæmt núgildandi reglum þar eru flestar verslanir lokaðar, skólar sömuleiðis og menningarstarfsemi er nánast engin.

Heilbrigðisyfirvöld segja áhrif af ferðalögum um jól og áramót ekki koma í ljós fyrr en um miðjan janúar en sjúkrahús víða séu nánast komin að þolmörkum.