Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Það sem er flókið er mest gaman

Mynd: RÚV / RÚV

Það sem er flókið er mest gaman

05.01.2021 - 11:58

Höfundar

„Ég vil hafa svolítið fjör í kringum mig og skila því aðeins í myndirnar,“ segir Daði Guðbjörnsson myndlistarmaður. 

Daði opnaði nýverið sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar sem nefnist Gjöf Daða. Sýningin samanstendur af 400 grafíkverkum sem listamaðurinn færði safninu að gjöf. „Þetta er gott yfirlit yfir það sem ég hef verið að gera í grafíkmiðlun gegnum ævina,“ segir Daði. „Ég held að það sem hafi upphaflega laðað mig að grafík sé að ég hef aldrei verið mjög hrifinn af að gera eitthvað einfalt og það hljómaði rosalega flókið að gera svona grafík. Ég hef alltaf sótt í flóknari og flóknari grafík. Ég byrjaði í dúkskurði sem er frekar einföld og svo fór ég að gera ætingar sem er aðeins flóknara og svo endaði ég í því sem kallað er litógrafía eða steinprent sem eru mörg flækjustig í. Það var eiginlega mest gaman.“

Öllu ægir saman

Daði segir að í gegnum verkin liggi þráður tilfinninga og óreiðu. „Það eru örugglega þessar tilfinningar sem eru eilíf spretta. Það er endalaust sem það koma tilfinningar í vitundina hjá manni og ég er að reyna að grípa svolítið utan um það og búa til einhver leikrit úr því sem ég set í myndirnar. Ég held að það sé kannski ákveðin óreiða sem lýsir dálítið vel þessum samtíma þar sem öllu ægir saman.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkin á sýningunni eru unnin með ólíkum aðferðum.

Góð blanda

Aðalsteinn Ingólfsson er sýningarstjóri Gjafar Daða. Verkin á sýningunni voru unnin á árunum 1978 til 2020. Þótt öll séu þau grafíkverk eru þau unnin með ólíkum aðferðum. „Ég hef farið að vinna núna í laser í fab-labinu og er að vinna sem sagt í tölvu og laser. Þetta er samt handverk í endann þegar þetta er prentað. Þannig að þetta er bæði handverk og tölva saman, það er mjög góð blanda. Kollegi minn, Steingrímur Eyfjörð, sagði mér um aldamótin að í framtíðinni yrðu til tvær tegundir af mönnum, þeir sem kunna á tölvur og svo hinir. Hann kenndi mér svo á tölvu svo að ég þyrfti ekki að vera þessir hinir,“ segir Daði.

Sýningin stendur til 30. janúar. Nánari upplýsingar má finna hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

Þögnin er einmitt það sem við þurfum núna

Myndlist

Svífandi pylsubrauð og Lottóþvottavél í Gerðarsafni

Myndlist

Blómleg flugeldasýning í garðinum heima