Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Staðan á vinnumarkaði mikið áhyggjuefni

05.01.2021 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Alþýðusambands Íslands segir ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði. Tryggja þurfi afkomuöryggi þeirra sem glíma við atvinnuleysi.

 

Atvinnuleysi er nú í sögulegu hámarki og sífellt fleiri leita sér aðstoðar hjá hjálparsamtökum vegna fjárhagsvandræða. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar sagði í kvöldfréttum sjónvarps að næstu mánuðir yrðu þeir erfiðustu frá því faraldurinn hófst.

Drífa Snædal forseti ASÍ telur ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

„Það eru meira en 20 þúsund manns atvinnulausir hér á landi. Aðallega fólk af erlendum uppruna og ungt fólk sem tekur harðasta skellinn. Þannig að þetta er mikið áhyggjuefni að fara inn í nýtt ár með þessar rosalegu tölur,“ segir Drífa.

Hún segir mikilvægt að bregðast sem fyrst við þessari stöðu.

„Það þarf fyrst og fremst að grípa þá sem eru atvinnulausir til þess að tryggja afkomuöryggi þeirra. Þá erum við að tala um hækkun grunnatvinnuleysisbóta og lengingu tímabilsins. En síðan þarf að hvetja fyrirtæki, hið opinbera og alla til dáða í að nýta þau úrræði sem þegar eru. Ráðningarstyrki, nýsköpunarstyrki. Við þurfum líka að hugsa hvernig vinnumarkað við viljum byggja upp eftir þetta. Þannig að við þurfum að nýta tímann til að laga það sem aflaga hefur farið á okkar vinnumarkaði og síðan vil ég sérstaklega benda á fjárfestingar hins opinbera,“ segir Drífa.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV