Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sérfræðilæknar rannsaka andlátin og aukaverkanirnar

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Tveir sérfræðilæknar á sviði öldrunar rannsaka fimm tilvik, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega gætu tengst alvarlegum aukaverkunum bólusetningar við kórónuveirunni. Jafnframt hefur verið kallað eftir upplýsingum annars staðar af Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldra fólki sem hefur verið bólusett í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Rannsóknin er á vegum landlæknis, sóttvarnalæknis og forstjóra Lyfjastofnunar.

Að auki verður gerð sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis.

Tilgangurinn með rannsókninni er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. í tilkynningu frá embætti landlæknis segir að eins og sakir standa bendi ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli.

„Þess ber að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl. Hafa ber í huga að að jafnaði látast 18 einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að rannsókninni verði hraðað eins og kostur er og að stefnt sé að því að frumniðurstöður fáist eftir viku til tíu daga. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun í bólusetningum eldri einstaklinga.