
Ríkið borgar tvo þriðju af kostnaði við hreinsunarstörf
Fimm milljónir verða einnig veittar til björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.
Kostnaðaráætlunin er ekki endanleg en hún tekur mið af tilteknum þáttum hreinsunarstarfs og uppgreftri. Í minnisblaði forsætisráðherra sem lagt var fyrir ríkisstjórn í morgun segir að umfangsmikið starf sé fram undan við að tryggja öryggi í bænum til frambúðar.
Í tilkynningu segir að við álíka hamfarir undangengin ár hafi ríkið greitt tvo þriðju kostnaðar við slíkar aðgerðir en sveitarfélögin þriðjung. Líklega liggur heildarkostnaður vegna tjónsins ekki fyrir fyrr en í vor eða síðar.
Þá var minnisblað mennta- og menningarmálaráðherra um tjón á Tækniminjasafninu og friðuðum húsum lagt fram á fundi ríkisstjórnarinnar og minnisblað umhverfis- og auðlindaráðherra um skriðuföllin, vöktun Veðurstofunnar og uppbyggingu ofanflóðavarna.