Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ómögulegt að alhæfa um 30.000 manna hóp

Sumir hafa áhyggjur af því að umræðan um sóttvarnabrotin í Landakotskirkju liti viðhorf til Pólverja á Íslandi almennt. Þetta segir mannfræðingur. Áhrif sóttvarnareglna á helgihald hafi líka verið til umræðu í Póllandi. 

Finnst að fylgst sé betur með sumum en öðrum

Uppákomurnar í Landakotskirkju hafa lítið verið ræddar í Facebook-hópi Pólverja á Íslandi, þó eitthvað. Einhverjir spyrja sig hvort lögreglan vakti verslanir Kringlunnar með sama hætti og messuhald í Landakotskirkju. „Fámennum hópi finnst þetta augljóslega óréttlátt, spyrja sig hvers vegna fylgst sé betur með sumum en öðrum, talið í kirkjum en ekki endilega í búðunum. Fólki finnst eins og það sé ákveðið ósamræmi í því hvernig reglunum er framfylgt,“ segir Anna Wojtyńska, doktor í mannfræði við Háskóla Íslands.  

Oft dregnar ályktanir um alla

Aðrir segja að burt séð frá persónulegum skoðunum þurfi allir að fara að reglum og óttast jafnvel að sóttvarnabrotin í kirkjunni hafi neikvæð áhrif á ímynd Pólverja á Íslandi. Pólverjar á Íslandi eru fjölbreyttur hópur. Anna segir að sumir séu kaþólskir, aðrir ekki, sumir fylgi sóttvarnareglum í einu og öllu, aðrir ekki. „Þrátt fyrir þennan fjölbreytileika, meira en 30 þúsund manns sem búa á Íslandi er oft dregin sú ályktun, þegar eitthvað gerist, að það endurspegli sýn allra í pólska samfélaginu,“ segir Anna.  Þó litið sé á Pólland sem trúað samfélag sé sumum lítið gefið um kirkjuna, líka á Íslandi. Hún segir að pólskir kaþólikkar hafi líklega meiri þörf fyrir að koma í kirkjuna núna, vegna viðkvæms ástands í samfélaginu. Það sé skiljanlegt á tímum einangrunar og erfiðleika en ábyrgðin á sóttvarnabrotunum sé kirkjunnar, að telja inn, ekki fólksins sem sótti messu, ekki frekar en það sé á ábyrgð fólks sem fer út í búð, að sóttvarnir í búðinni séu í lagi. 

Sóttvarnir í guðshúsum líka ræddar í Póllandi

Meirihluti kaþólikka á Íslandi kemur frá Póllandi. Nú hefur öllum stórum messum í Landakotskirkju verið aflýst, prestarnir mátu það svo að betra væri að loka kirkjunum en að vísa fólki frá. Áhrif sóttvarnaregla á helgihald hafa líka verið í  umræðunni í Póllandi, sérstaklega í upphafi faraldursins.  Anna segir að skilaboðin frá yfirstjórn kirkjunnar þar hafi verið skýr, það eigi að virða sóttvarnir, en fjöldatakmarkanir hafi samt verið umdeildar og ákveðnir prestar sett sig upp á móti þeim. 

Gott upplýsingaflæði

Anna segir að vel hafi gengið að miðla upplýsingum á pólsku, um þær reglur sem gilda hverju sinni. Fólk hafi því allar forsendur til að fylgjast með.