Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nánast jafn mörg smit á landamærunum og innanlands

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nánast jafn margir hafa greinst með kórónuveiruna á landamærunum síðustu tvær vikur og hafa greinst innanlands. Þetta sést þegar nýgengi smita er skoðað á covid.is þar sem það er nánast jafn hátt. Sérstök eftirfylgni er með þeim sem greinast með B.117-afbrigðið sem fannst fyrst á Bretlandi og er talið meira smitandi. 21 greindist með virkt smit á landamærum síðustu 3 daga, en 9 innanlands.

Sýktum farþegum fjölgar

Aðeins fjórir greindust með veiruna innanlands í gær og voru þeir allir í sóttkví. Athygli vekur að nýgengi smita síðustu tvær vikur á landamærunum er nú nánast jafn hátt og nýgengið innanlands. 

Á sama tíma og innanlandssmitum tekur að fækka, fjölgar þeim sem greinast smitaðir við komuna til landsins, enda mun fleiri farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll nú til að komast heim til Íslands um og eftir hátíðarnar. Sömu reglur gilda fyrir alla farþega, sama hvaðan þeir eru að koma, þar sem heimurinn allur er skilgreindur sem áhættusvæði. Síðustu þrjá daga, 2., 3. og 4. janúar, greindist 21 farþegi með virkt smit við komuna til landsins. Til samanburðar greindust 9 manns innanlands á sama tímabili. Búist er við að smitum á landamærunum fjölgi eitthvað næstu daga þar sem nokkuð margir fóru til útlanda til að halda upp á jól og áramót hjá vinum og vandamönnum.

Útgöngubönn og lokanir í kring um okkur

Smitum hefur fjölgað hratt í helstu nágrannalöndum Íslands, til að mynda er búist við að aðgerðir í Danmörku verði hertar enn frekar í dag eða á morgun. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær enn harðari sóttvarnaraðgerðir í landinu öllu, með lokunum, útgöngu- og ferðabönnum. Fjölmörg ríki hafa lokað landamærum sínum fyrir farþegum frá Bretlandi vegna útbreiðslu veirunnar þar og er Spánn þar á meðal. Heilbrigðisyfirvöld þar í landi hafa síðustu daga verið að herða aðgerðir enn frekar, en mismikið eftir héröðum. Útgöngubann er í gildi á landinu öllu, ýmist frá klukkan 22 eða 23 á kvöldin til klukkan sex næsta dag. Harðar fjöldatakmarkanir eru í verslunum og í Íslendingahéraðinu Alicante verða reglur hertar í vikunni, sem fela meðal annars í sér að veitingastöðum verði lokað klukkan 17 og ekki fleiri en fjórir mega sitja saman við borð. 

Sérstök eftirfylgni með bresku veirunni

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að skimunin á landamærunum og skipulagið í kringum hana sé einn af lykilþáttum þess hve vel gangi núna. Nú sé verið að bíða eftir því hvernig áramótin gengu fyrir sig og hvort smitum innanlands fjölgi eitthvað eftir þau. 

Hann segir að gerðar hafi verið viðbótarráðstafanir varðandi þá sem greinast með B.117-afbrigðið sem hefur einnig verið kallað „breska afbrigðið“. Allir sem komi til landsins fái upplýsingabækling á átta tungumálum um hvað þeir megi gera og hvað þeir megi ekki gera. Þar er útskýrt að fólk eigi að vera í sóttkví þótt fyrsta sýnatakan sýni neikvæða niðurstöðu.

Á milli fyrstu og annarrar sýnatöku fái fólk síðan sjálfvirk skilaboð þar sem minnt er á mikilvægi þess að fara varlega.  „En auk þess hringjum við í þá sem greinast með breska afbrigðið og fylgjumst betur með þeim.“

Rögnvaldur bendir á að hvert einasta smit sé raðgreint hér á landi á meðan hlutfallið í öðrum löndum er á bilinu 10 til 20 prósent.  Þetta geri þeim kleift að fylgjast betur með því hvort eitthvað sé að leka í gegnum landamærin þar sem uppistaðan í smitum innanlands er áfram „bláa veiran“ sem fyrst greindist í tveimur frönskum ferðamönnum í ágúst.

 

Ekkert að frétta af breytingum á næstunni

Engra fregna er að vænta á næstu dögum vegna breytinga sem verða gerðar á fyrirkomulagi sóttvarnaraðgerða á landamærunum. Núverandi reglur gilda til 1. febrúar og samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu er enn of langt í það til að segja til um hvort, og þá hvernig breytingar verði gerðar. 

Þær reglur sem eru í gildi núna skylda alla sem koma til landsins til að fara annað hvort í tvöfalda sýnatöku, með um það bil fimm daga sóttkví á milli, eða 14 daga sóttkví ef fólk vill sleppa við sýnatöku. Allt bendir til þess að núverandi fyrirkomulag, tvöföld skimun eða 14 daga sóttkví, verði í gildi á landamærum Íslands út mánuðinn, nema að reglur verði hertar frekar varðandi komufarþega frá löndum þar sem faraldurinn er í mikilli útbreiðslu, eins og til dæmis á Bretlandi. Nú hafa hátt í 200.000 sýni verið tekin við landamæraskimun, tæplega 140.000 í fyrri skimun og um 62.000 í seinni. Heilbrigðisyfirvöld hafa þó gefið það út að væntanlegar breytingar, ef af þeim verða, verði tilkynntar fyrir 15. janúar. En eins og sóttvarnarlæknir segir um það bil tvisvar sinnum í viku eða oftar: næstu dagar munu leiða það í ljós.