Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Láðist að auglýsa gjaldskrá, oftekin gjöld endurgreidd

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bílastæðasjóður sendi í desember út fjölda tilkynninga um oftekin gjöld vegna sekta sem rukkaðar voru á tímabilinu 1. janúar til 24. september í fyrra vegna stöðvunarbrota.

Endurgreiða 13 milljónir af ofteknum gjöldum

Heildarupphæð endurgreiðslna er um 13 milljónir sem ná til um 1.300 stöðvunarbrota, samkvæmt svari Þorsteins Rúnars Hermannssonar, samgöngustjóra á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Við gildistöku nýrra umferðarlaga þann 1. janúar í fyrra hóf Bílastæðasjóður að leggja á gjöld vegna tiltekinna stöðubrota í samræmi við ný umferðarlög sem samþykkt voru í júní 2019. 

Þau mistök urðu við gildistöku nýju laganna að það láðist að gefa út og auglýsa nýja gjaldskrá og telur Reykjavíkurborg að þáverandi gjaldskrá sé ekki nægjanlega skýr til þess að veita heimild fyrir álagningu umræddra gjalda. Þetta kemur fram í orðsendingu sem send var þeim sem eiga rétt á endurgreiðslu sekta.

Nýja gjaldskráin er nú í gildi og var auglýsingin birt í Stjórnartíðindum í október. Samgönguráðherra skrifaði undir auglýsinguna þann 22. október.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV