Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jólatrén fari á Sorpu eða til íþróttafélaganna

05.01.2021 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: T. Rampersad - Unsplash
Þrettándinn er á morgun og þá taka margir landsmenn niður jólaskrautið, þar á meðal jólatréð. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu borgarlandsins í Reykjavík, segir að borgin taki ekki við jólatrjám og því þýði ekkert að henda þeim út á götu. Best sé að fara með þau beint á Sorpu eða að fá fulltrúa íþróttafélaganna til þess að sækja þau.

„Reykjavíkurborg hefur ekki tekið jólatré í mörg ár og mun ekki gera það núna. Þannig að þetta er bara það sama og með flugeldana, það er um að gera að fara með þau á Sorpu, klippa þau niður og fara með þau þangað ef fólk hefur ekki pláss að öðru leyti í bílnum sínum,“ segir Hjalti Jóhannes. 

„En síðan eru mörg íþróttafélög að bjóða þessa þjónustu og ég hvet fólk til þess að heimsækja hverfavefinn sinn eða Facebook-síðu hverfisins og þar eru örugglega upplýsingar um slík mál.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV