
Hátt í 30 biðu á bráðamóttöku eftir rúmi á Landspítala
Síðdegis í dag biðu 16 sjúklingar á bráðamóttöku eftir að komast á þær deildir sem þeir eiga að leggjast inn á og þar af lágu níu á göngum spítalans. Talan var talsvert hærri í fyrr í dag, að sögn Jóns Magnúsar.
„Staðan hefur verið ansi þung hjá okkur í dag. Þannig voru í morgun 25 sem biðu innlagnar á deildinni hjá okkur og fór mest upp í 29 á þessum sólarhring,“ segir Jón Magnús.
Hann segir að plássleysis hafi gætt á spítalanum undanfarna daga. „Meðal annars vegna þess að það liggja inni á spítalanum einstaklingar sem hafa lokið sjúkrahúsþjónustu og eru að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimilum og þar af leiðandi komast ekki nýir sjúklingar til innlagnar.“
Jón Magnús segir að af þeim 80 öldruðu einstaklingum sem bíða á spítalanum sé 31 í bráðaplássi sem er ætlað þeim sem eru í virkri meðferð. Hann segir að biðtími þeirra sem bíða eftir að komast í innlögn sé rúmur sólarhringur. Það sé tala sem er mun hærri en æskileg sé.
Hvernig er aðstaðan fyrir þetta fólk sem þarf að liggja inni á bráðamóttöku?„Því miður geta til dæmis ekki allir verið á einbýli, við þurfum að koma nýjum einstaklingum sem leita til okkar fyrir á göngum, ekki við fullkomnar sýkingavarnir.“
Er það ekki slæmt í heimsfaraldri að þurfa að láta fólk liggja á göngum? „Jú. Við viljum alltaf fyrir alla muni koma í veg fyrir að þurfa að gera þetta.“