Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erfiðir mánuðir framundan

Tæplega níu þúsund manns misstu vinnuna í hópuppsögnum á síðasta ári og hafa aldrei verið fleiri. Búist er við að atvinnuleysi haldi áfram að aukast. Félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að næstu mánuðir verði þeir erfiðustu frá því faraldurinn braust út.

Staðan á vinnumarkaði hefur farið hratt versnandi eftir að faraldurinn braust út í byrjun síðasta árs.  Í janúar í fyrra mældist almennt atvinnuleysi 4,8 prósent en mældist 10,6 prósent í nóvember. Allt bendir til þess að það hafi aukist enn frekar í desember.

Alls misstu 137 starfið í þremur hópuppsögnum í síðasta mánuði samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Í heild var tilkynnt um 141 hópuppsögn á síðasta ári þar sem 8.789 var sagt upp störfum.

Um fjögur þúsund manns hafa nú verið án vinnu í tólf mánuði eða lengur. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar telur að næstu mánuðir verði mjög erfiðir.

„Þeir verða mjög erfiðir. Af því að þá er eins og ég segi fólk komið á lægstu atvinnuleysisbæturnar, búið að borða út úr skápunum. Ef það átti einhvert sparifé þá er það búið og fólk er búið að reyna allt. Fólk reynir auðvitað allt áður en það fer á hjálparstofnanir til að biðja um aðstoð. Við finnum það hér að það er mikill kvíði, mikill þungi í fólki og áhyggjur af því að fá ekki starf aftur. Og kannski öðruvísi frá því í hruninu því þá hafði fólk möguleika að leita starfa erlendis sem ekki er núna,“ segir Vilborg.

Staðan er hvað verst hjá erlendum ríkisborgurum. Þar var ástandið slæmt áður en faraldurinn hófst. Tíu komma sex prósent voru án vinnu í janúar en í nóvember var atvinnuleysið komið upp í 24 prósent.

Vilborg segir að margir sem leiti til Hjálparstarfs kirkjunnar tilheyri þessum hópi.

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV