Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úthlutaði oblátum til kirkjugesta án sóttvarna

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að tíminn verði að leiða í ljós hvort smit verði vegna þess að prestur úthlutaði oblátum í messu í Landakotskirkju í gær án þess að tryggja sóttvarnir. Sóttvarnareglur hafa tvisvar verið brotnar í Landakotskirkju. 

Opinberum sunnudagsmessum og vigilmessum á laugardagskvöldum í kaþólsku kirkjunni hefur verið aflýst. Þetta var tilkynnt eftir að ljóst var að sóttvarnareglur höfðu tvisvar verið brotnar í Landakotskirkju, síðast í gær þegar lögregla var kölluð til þegar messa fór fram á pólsku. Sjá mátti að ekki voru nægjanlegar sóttvarnir þegar presturinn úthlutaði oblátum til kirkjugesta. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir segir að málið, eins og önnur af svipuðu tagi, sé í höndum lögreglunnar. „Ekki mikið meira um það að segja í sjálfu sér en auðvitað er það bara miður ef menn hafa ekki farið eftir og vilja ekki fara eftir þeim reglum sem eru í gangi“

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að tíminn leiði í ljós hvort smit verði vegna þessa atburðar.  „En þar sem fjöldatakmarkanir eru ekki virtar, þar sem eru of margir, þar sem ekki eru grímur og þar sem eru sameiginlegir snertifletir og sameiginlegur búnaður gengur á milli þar er bara opin gátt fyrir smit til að komast áfram ef þau eru til staðar.“
 
Ekki sé vitað til þess að samkomutakmarkanir hafi ekki verið virtar í öðrum guðshúsum um hátíðarnar. Tilkynnt hafi verið um svipað tilfelli fyrr á árinu þar sem trúarsöfnuður fylgdi ekki þáverandi fjöldatakmörkunum.    
Rögnvaldur segir að tilgangurinn með reglunum sé ljós  
 
„Það getur endað með því að smitin fara á flug.  Það er það sem enginn vill. Alveg sama hvaða starfsemi það er. Ef eitthvað kemur upp sem er tengt viðkomandi starfsemi og  kemur í ljós að reglur hafi verið brotnar það náttúrlega setur viðkomandi í leiðinlega stöðu og blett á þeirra starfsemi.“