Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Úrskurðað í framsalsmáli Assanges í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Dómari í Lundúnum úrskurðar í dag hvort Julian Assange, stofnandi Wikileaks, skuli framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann hefur verið ákærður fyrir njósnir. Sakarefnið er birting þúsunda leynilegra skjala frá bandaríska hernum tengdum hernaði í Írak og Afganistan fyrir rúmum áratug.

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks segist í samtali við AFP fréttastofuna þess fullviss að Vanessa Baraitser dómari ákveði að Assange skuli framseldur.

Einhliða afstaða hafi verið tekin gegn honum meðan á málaferlunum stóð og mjög á honum brotið. Áður hefur Kristinn sagt að málaferlin gegn Assange séu harðneskjuleg árás á málfrelsið.

Stella Morris unnusta Assanges hefur sent Donald Trump Bandaríkjaforseta ákall um að náða hann. Hið sama gerði Nils Melzer lögfræðingur á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hann segir að með náðun sýndi forsetinn mannúð, réttlætiskennd og sannleiksást.

Þýsk stjórnvöld og talsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa lýst yfir áhyggjum af örlögum Assanges verði hann framseldur en vestra gæti beðið hans 175 ára fangelsisdómur.

Assange, sem er 49 ára, glímir við öndunarfærasjúkdóm sem gerir hann berskjaldaðan fyrir því að sýkjast af COVID-19. Fjöldi fanga í öryggisfangelsinu þar sem honum er haldið hefur veikst.

Sömuleiðis hafa vitni í málaferlum gegn honum staðhæft að hann eigi við alvarlegt þunglyndi að stríða og gæti reynt að stytta sér aldur verði hann fangelsaður í Bandaíkjunum.