Þórólfur: Óvíst hvort andlátin tengist bólusetningum

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að afla þurfi meiri upplýsinga um heilsufar þeirra þriggja sem látist hafa hér á landi í kjölfar kórónuveirubólusetninga áður en hægt sé að taka ákvörðun um framhald fyrirkomulags bólusetninga hér á landi. Hann segir að hafa verði í huga að um sé að ræða aldrað fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

„Auðvitað þurfum við að skoða þetta mjög vel. Ég held að við þurfum að fá betri upplýsingar um þessa einstaklinga, þeirra ástand og veikindi og heyra í læknum um allt land áður en við getum sagt eitthvað,“ segir Þórólfur.

„Maður þarf líka að muna að þarna var verið að bólusetja þá veikustu og elstu í samfélaginu, sem eru hrumir og með langvinna sjúkdóma. Það getur ýmislegt haft áhrif sem ekki tengist bólusetningunni þegar um er að ræða veikast fólkið okkar. Þannig að spurningin er hvort þetta tengist bólusetningunni. Það getur verið erfitt að fullyrða nokkuð um það.“

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði í samtali við Fréttastofu í dag, að samtals hefðu borist 16 tilkynningar um aukaverkanir í kjölfar kórónuveirubólusetningar og af þeim hafi tíu verið heilbrigðisstarfsmenn. Þá hefðu fjórar af tilkynningunum 16 verið alvarlegar og þar væri um aldraða að ræða. 

Þórólfur segir að fyrst hafi Lyfjastofnun borist tilkynningarnar um andlátin þrjú. Hún tilkynni þau til Lyfjastofnunar Evrópu. „Við sendum fyrirspurn til framleiðanda bóluefnisins, Pfizer. “

Hann segist ekki hafa upplýsingar frá öðrum löndum, þar sem bólusetningar eru hafnar, um fjölda andláta í kjölfar bólusetninga. „En hlutfall þeirra sem létust í stórum rannsóknum, þar sem tugir þúsunda voru bólusettir, var lægra en í samanburðarhópnum þar sem fólk fékk ekki bólusetningu.“