Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Það er hægt að samræma guðs lög og sóttvarnalög“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Jakob Rolland  kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi segir sóttvarnareglur nauðsynlegar, en ekki sé ásættanlegt að sömu reglur gildi alls staðar. Hann segir að engin smit hafi verið rakin til messuhalds kirkjunnar, hugsanlega verði gerðar breytingar á messuhaldi á virkum dögum vegna fjöldatakmarkana. Hægt sé að samræma guðs lög og sóttvarnareglur.

Öllum  opinberum sunnudagsmessum og vigilmessum kaþólsku kirkjunnar á laugardagskvöldum hefur verið aflýst vegna þess að ekki er hægt að fylgja sóttvarnarreglum í messum kirkjunnar. Þetta kom fram í tilkynningu frá David Tencer biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í dag. Þetta vhefur ákveðið að aflýsa öllum  opinberum sunnudagsmessum og vigilmessum á laugardagskvöldum. 

„Við erum ekki ósátt við að það séu sóttvarnareglur. Það er alveg augljóst að slíkar reglur eru nauðsynlegar og við verðum að fylgja þeim. En hitt er annað, að sömu reglur verði að gilda alls staðar ef maður er að tala um sambærilegar aðstæður. Og við erum ósátt við að það ekki  gildi sömu reglur á veitingastöðum, afþreyingarstöðum, tónleikum og í kirkjunni,“ segir Jakob.

„Kirkjan er ekki hættulegri staður en nokkur annar staður.“

Sóttvarnarreglur hafa tvisvar verið brotnar í Landakotskirkju um hátíðirnar, síðast í gær þegar lögregla var kölluð til þegar þar var verið að messa á pólsku. Fimmtíu og einn var í kirkjunni en samkvæmt sóttvarnareglum mega aðeins tíu koma saman í kirkjum landsins. Sóttvarnarreglur voru einnig brotnar í Landakotskirkju á aðfangadagskvöld þegar alltof margir tóku þar þátt í messu. 

Jakob segir að prestar kirkjunnar hafi ekki treyst sér til að vísa fólki frá. Fólk þurfi á því að halda að biðja og fá stuðning frá söfnuði sínum.  „Maður talar nú um alvarlegar aðstæður í heiminum. Og þörfin fyrir að biðja er kannski meiri núna en venjulega.“

Hann segir að vegna þessa hafi biskup kirkjunnar ákveðið að fella allt messuhald kirkjunnar niður um helgar. Komi fleiri en tíu í messur á virkum dögum verði fólki væntanlega vísað frá eða messum fjölgað. „Annaðhvort vísa fólki frá eða gera á þann hátt að við verðum ekki með fleiri en tíu,“ segir Jakob.

Fram hefur komið að litlar sóttvarnir hafi verið í messum kirkjunnar og að prestar hennar hafi til dæmis ekki sprittað sig þegar þeir gáfu fólki oblátur. Jakob segir að engin smit séu rakin til kirkjunnar. „Þannig að ég held að við séum með að minnsta kosti eins strangar reglur ef ekki strangari reglur en gengur og gerist. Þar verða prestarnir líka að hugsa sinn gang og fylgjast betur með þeim reglum sem hefur verið mælt með. “

Finnst ykkur mikilvægara að koma og biðja en að virða sóttvarnareglur?  „Guðs lög gilda fyrst og fremst, það er augljóst. En við verðum líka að fylgja sóttvarnareglum. Og það er hægt að samræma þetta,“ segir Jakob.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV