Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skelfileg umgengni um áramótin

04.01.2021 - 19:28
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Umgengni á höfuðborgarsvæðinu var víða skelfileg um áramótin og flugeldarusl á víð og dreif. Skrifstofustjóri hjá borginni segir að það sé á ábyrgð íbúa að taka til. Á Akureyri vann fjöldi starfsmanna við að hreinsa bæinn í dag.

Venju samkvæmt voru landsmenn duglegir að skjóta upp flugeldum um áramótin. Þeir virðast hins vegar ekki hafa verið jafnduglegir að taka til eftir sig, að minnsta kosti ekki í höfuðborginni.

„Það verður bara að segjast eins og er eins og undanfarin áramót að Reykvíkingar gengu því miður ekki mjög vel um eins og sést hérna fyrir aftan okkur,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu borgarlandsins. „Og ég vil bara hvetja fólk sem er að skjóta upp á annað borð til þess að taka flugeldaruslið eftir sig og setja það í Sorpu. Það er mikilvægt að við göngum öll vel um. Við viljum sjá íbúðina okkar og húsin hrein og við viljum líka sjá borgarlandið hreint og fínt eftir svona viðburði.“

Á heima á Sorpu

Sjálfboðaliðar frá SEEDS unnu að því um helgina að hreinsa til á höfuðborgarsvæðinu, en þrátt fyrir það var víða rusl þegar fréttastofa var á ferðinni í dag. Þar á meðal á Landakotstúni þar sem starfsmenn borgarinnar voru að störfum.

„Það er vissulega hlutverk okkar að hreinsa borgarlandið en fyrst og fremst er þetta á ábyrgð íbúa að hreinsa ruslið eftir sig. Við komum vissulega á einhverjum tímapunkti og tökum þetta en ábyrgðin er alltaf fólks sem skýtur þessum hlutum upp,“ segir Hjalti.

Þegar fréttastofu bar að garði í Gnoðarvoginum var verið að skipta út pappírsgámi sem kveikt hafði verið í. Og fólk var búið að hlaða skottertunum upp við hlið gámanna, sem það á ekki að gera.

„Þetta á ekki heima á flokkunarstöðvunum okkar, þetta á heima í almennu rusli á endurvinnslustöðvum Sorpu. Þangað vil ég hvetja fólk til þess að fara með allt rusl sem stafar af flugeldum,“ segir Hjalti.

Í fréttinni sem hægt er að horfa á í spilaranum hér að ofan má sjá að á Akureyri unnu menn einnig hörðum höndum við það í dag að tína rusl eftir áramótin.