Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ólafur Arnalds - some kind of peace

Mynd: RÚV / RÚV

Ólafur Arnalds - some kind of peace

04.01.2021 - 15:25

Höfundar

Platan some kind of peace, er fimmta breiðskífa tónlistarmannsins Ólafs Arnalds og jafnframt hans persónulegasta til þessa. Útkoman er blanda af lágstemmdri nýklassík og viðkvæmu rafpoppi sem ber öll aðalsmerki listamannsins. Auk Ólafs koma meðal annars fram á plötunni breski raftónlistarmaðurinn Bonobo, þýska söngkonan Josin og Jófríður Ákadóttir, einnig þekkt sem JFDR.

Ólafur Arnalds hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra tónlistamanna og hefur undanfarin áratug sannað sig sem eitt áhrifamesta nútímatónskáld heims. Auk þess að hafa gefið út fjölda margar plötur undir eigin nafni hefur Ólafur líka leikið með rafsveitinni Kiasmos og samið tónlist fyrir kvikmyndir og þáttaraðir á borð við Broadchurch, sem fékk BAFTA-verðlaun fyrir bestu tónlist, og Defending Jacob, en fyrir þá síðarnefndu hlaut hann á dögunum tilnefningu til Emmy-verðlauna.

Það sem helst einkennir nýju plötuna, some kind of peace, að sögn Ólafs, er hversu berskjölduð hún er. Sjálfur segist hann vera vanur að finna stórar hugmyndir og þemu í kringum plöturnar sínar til að miðla eigin hugðarefnum. Í þetta skiptið fannst honum kominn tími til að setja meira af sjálfum sér í verkið.

„Það er óneitanlega svolítið stressandi að opna sig svona. Ekki að tónlistin sem ég hef gefið út áður hafi ekki komið frá hjartanu en ég hef einhvern vegin aldrei gert sjálfan mig að miðpunktinum. Það eru alls konar hlutir þarna sem væri hægt að rýna í og spegla mig og mínar upplifanir undanfarin ár. Ég held að ég hafi ekki verið tilbúinn að gefa út svona verk fyrr en núna,“ segir Ólafur.

Ólafur hafði þegar samið um helming plötunnar þegar faraldurinn fór að láta á sér kræla í upphafi síðasta árs og einangraði sig í nýju hljóðveri sínu í Reykjavík mánuðina þar á eftir til þess að klára. Samt stóð ekki til að þetta væri einhvers konar COVID-plata. Þegar faraldurinn er yfirstaðinn er ætlunin að hún geti staðið sem sjálfstætt verk án þess að pestin komi upp í hugann, en auðvitað hefur ástandið haft áhrif á lokaútkomuna.

Platan some kind of peace hefur hlotið magnaðar viðtökur um heim allan frá því hún kom út og lenti í útgáfuvikunni í toppbaráttu á breska vinsældalistanum. Það þykir afar óvenjulegt fyrir nýklassíska, nánast ósungna plötu, og keppti Ólafur þar við margar af stærstu stjörnum heims meðal annars Billie Eilish, Harry Styles, Kylie Minogue og Elton John. Auk þess valdi ein framsæknasta útvarpsstöð Bretlands, BBC 6 Music, some kind of peace sem plötu dagsins og hin virta plötubúð Rough Trade sem plötu mánaðarins. Margir helstu tónlistarmiðlar heims, NPR, Clash Magazine, Sunday Times, New York Times og fleiri, hafa sömuleiðis keppst við að ausa plötuna lofi.

Plata Ólafs Arnalds, some kind of peace, er fyrsta plata vikunnar á þessu ári á Rás 2 og verður flutt í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg allan sólarhringinn í Spilara á RÚV.is.

Mynd með færslu
 Mynd: Decca Records - some kind of peace
Ólafur Arnalds - some kind of peace