Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Náði 5,4 bóluefnaskömmtum úr hverju lyfjaglasi

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefði getað bólusett nokkur hundruð manns til viðbótar ef hún hefði nýtt hvert lyfjaglas með sama hætti og Landspítalinn. Þetta segja læknar og heilbrigðisstarfsmenn sem fréttastofa ræddi við í dag.

 

Tíu þúsund skammtar af bóluefni Pfizer komu hingað til lands milli jóla og nýárs. Bólusetning hófst 29. desember og lauk skömmu fyrir áramót.

Bóluefninu er dreift í sérstökum lyfjaglösum og er almennt er miðað við að fimm skammtar séu í hverju glasi. Í Bandaríkjunum hafa reynst vera aukaskammtar í glösunum, þannig að í þeim séu allt að sex til sjö skammtar.

Landspítalinn náði 5,4 skömmtum úr hverju glasi. Spítalinn fékk um 800 skammta en náði að nýta þá til að bólusetja 70 manns til viðbótar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fékk á 2.200 skammta sem voru flestir nýttir til að bólusetja íbúa á hjúkrunarheimilum. Þar náðust fimm skammtar úr hverju glasi.

Læknar og heilbrigðisstarfsmenn sem fréttastofa ræddi við í dag fullyrða að hægt hefði verið að bólusetja nokkur hundruð manns til viðbótar ef heilsugæslan hefði nýtt sína skammta betur. Þess í stað hefði mikið magn bóluefnis hreinlega farið til spillis.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar í þessum efnum.

„Þannig á meðan það er ekki stöðugleiki í því að ná þessum sjötta skammti þá er það óráðlegt tel ég að vera blanda saman afgöngum úr glösum, milli glasa og svo framvegis og það býður ýmissi hættu heim held ég. Þannig að þetta er ekki það sem skiptir máli í stóra samhenginu. Heldur að þetta sé gert örugglega og að menn fari eftir þeim reglum sem framleiðandinn setur. Framleiðandinn hefur sagt að það megi nota sjötta skammtinn ef hann næst úr glasinu,“ segir Þórólfur.

Sprauta þarf fólk tvisvar með bóluefni Pfizer og því verður að tryggja að nægt efni sé til staðar þegar kemur að seinni sprautu.

„Það getur líka skapað eins og ég segi vandamál fyrir skammt númer tvö ef við náum ekki stöðugt sjötta skammtinum úr öllum glösum. Þá verða einhverjir einstaklingar afgangs í seinni bólusetningunni og þetta verður svona tilviljunarkennt og ég held að það sé ekki skynsamlegt,“ segir Þórólfur. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV