Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fylgst reglulega með slitskemmdum í tengivirkjum

04.01.2021 - 13:01
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Rafmagnslaust varð á Vesturlandi og í Húnaþingi í gærkvöld. Straumlaust var lengst í um fjóra tíma en bilunin varð vegna slitskemmda í tengivirki. Upplýsingafulltrúi Landsnets segir að fylgst sé reglulega með búnaðinum og að nú verði tilvikið skoðað.

Bilunin varð í tengivirki við Vatnshamra í Borgarfirði og olli því að rafmagn fór af í Borgarfirði, Snæfellsnesi og Hrútafirði á tíunda tímanum. Á Akranesi sló út um stundarkorn en ekki varð rafmagnslaust á Grundartanga. 

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í viðtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson að skálakeðja hafi slitnað í tengivirkinu sem varð til bilunar í dreifikerfi. 

„Þetta er gamalt tengivirki. Það verður álag, koma slitfletir. Í gær var vont veður á svæðinu. Það var ekki aftakaveður en það var hávaðarok. Þetta slæst til og á endanum slitnar þetta.“

Viðgerðum lauk á öðrum tímanum í nótt, straumlaust var í lengst fjóra tíma en á flestum stöðum var rafmagn komið á fyrr. Varaafl var keyrt í Stykkishólmi og Ólafsvík og virkjanir bæði á Snæfellsnesi og í Andakíl hlupu undir bagga. Truflun varð á FM sendingum RÚV, en ekki allar stöðvar eru með varaafl. Langbylgjan var þó inni allan tímann og hennar nýtur yfir höfuð við ef FM dettur út. Engar tilkynningar um truflun á internettengingu bárust Mílu á meðan þessu stóð. 

Steinunn segir tengivirkin sem skoðuð með reglulegu millibili. 

„Stundum er slit sýnilegt, stundum ekki. Stundum eru þetta veikleikar sem koma í ljós. Nú förum við að skoða atburðinn, hvað gerðist sem olli því að þessi keðja fór út á þessum tíma.“