Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bóluefni Moderna ekki samþykkt í Evrópu í dag

epa08852847 (FILE) - Signs at the main entrance for the biotech firm Moderna, are seen outside the company's Norwood facilities in Norwood, Massachusetts, USA 25 February 2020 (reissued 30 November 2020). US Biotech firm Moderna Inc.is filing for US regulatory approval of its coronavirus vaccine so that it can be recommended for widespread use, the company announced 30 November 2020.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki komist að niðurstöðu um hvort kórónuveirubóluefni Moderna fái markaðsleyfi í álfunni. Búist hafði verið við að ákvörðun um það yrði tekin á fundi sérfræðinganefndar stofnunarinnar í dag, en vonast er til þess að komist verði að niðurstöðu á fundi hennar á miðvikudaginn.

Hefði markaðsleyfið verið samþykkt í Evrópu í dag, eins og búist var við, hefði slíkt leyfi verið gefið út hér á landi á morgun. 

Upphaflega stóð til að afgreiða umsókn Moderna á fundi sérfræðinganefndarinar 12. janúar. Þeim fundi var flýtt til 6. janúar en hann var síðan færður fram um tvo daga.  Staðan á farsóttinni í mörgum Evrópulöndum er slæm og Evrópusambandið hefur verið gagnrýnt fyrir seinagang varðandi samþykkt og dreifingu bóluefnis.

Moderna hefur verið notað bæði í Bandaríkjunum og Kanada ásamt bóluefni Pfizer og BioNTech. Bretar hafa notast við það síðarnefnda og eru auk þess að hefja bólusetningu með bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskólans. Ekki er búist við að það bóluefni fái markaðsleyfi hjá Evrópusambandinu fyrr en í næsta mánuði.

Moderna-bóluefninu svipar til bóluefnis Pfizer og BioNTech. Bæði innihalda genaupplýsingar fyrir gaddaprótein. Þegar bóluefnið hefur verið gefið lesa frumur líkamans þessar upplýsingar og hefja framleiðslu á gaddapróteinum. Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur gegn veirunni. Það er síðan sú vörn sem kemur að gagni til að verja viðkomandi gegn sýkingu af völdum COVID-19. Prófanir hafa sýnt að virkni bóluefnis Moderna er 94,1%. 

Það er aftur á móti auðveldara að flytja bóluefni Moderna þar sem það geymist við -15 til -25 gráðu frost en það er svipað hitastig og í venjulegum frysti.  Hægt er að geyma það við 2 til 8 gráður í 30 daga sem er jafn kalt og í venjulegum ísskáp. Bóluefni Pfizer þarf hins vegar að geyma við -70 gráðu frost. 

Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir samning við Moderna 30. desember. Sá  samningur er upp á bóluefni fyrir 168 þúsund manns.