Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bilunin olli truflunum hjá meira en 15 þúsund notendum

04.01.2021 - 23:38
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Slitskemmdir í tengivirki ollu rafmagnstruflunum hjá meira en fimmtán þúsund manns á Vesturlandi og í Húnaþingi í gærkvöld. Um fjóra tíma tók að laga bilunina.

Bilunin í virkinu varð á tíunda tímanum í gærkvöld. Grafík inn Hún varð í tengivirki við Vatnshamra í Borgarfirði og olli rafmagnsleysi í Borgarfirði, Snæfellsnesi og Hrútafirði. grafík út Við bilunina var afli keyrt um varalínu í gegnum Akranes sem olli einnig rafmagnstruflun þar í stundarkorn vegna álags.

Það tók ekki langan tíma að átta sig á hvað hafði komið fyrir þegar hingað í tengivirkið var komið. Ein skálakeðjan hafði slitnað og flaksaði um í vindinum. 

Teymi frá Landsneti lauk við að laga bilunina um tvö í nótt, þá hafði hún varað í um fjóra tíma. Rafmagn var þó þegar komið á flesta staði. Varaafli var keyrt í Stykkishólmi og Ólafsvík og virkjanir á Snæfellsnesi og í Borgarfirði hlupu undir bagga. Skálakeðjan gaf sig vegna slits og veðurs.

„Við förum í reglulegt eftirlit á línunum okkar þar sem við skoðum sérstaklega keðjur sem þessar og tökum þetta út á nokkurra ára fresti,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Atvikið verður nú skoðað hjá Landsneti. 

Rof varð á FM-sendingum RÚV á meðan útslættinum stóð, en ekki allir sendar hafa varaafl. Ekki varð truflun á internettengingu samkvæmt Mílu. Fáeinar tilkynningar um tjón hafa skilað sér til RARIK vegna straumleysisins.