Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Var kannski viðbúinn því að svona gæti farið“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Var kannski viðbúinn því að svona gæti farið“

03.01.2021 - 11:05
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta segir vonbrigði að Aron Pálmarsson yrði ekki með Íslandi í leikjunum fram undan. Aron er meiddur á hné og missir af leikjunum tveimur við Portúgal í undankeppni EM eftir helgi og öllu HM í Egyptalandi.

„Þetta eru náttúrulega gríðarleg vonbrigði. Satt að segja er þetta einn besti leikmaður íslenska landsliðsins. Þetta er mikil blóðtaka fyrir okkur. Það verður að segjast eins og er,“ sagði Guðmundur fyrir æfingu íslenska liðsins í Víkinni í dag.

„Ég frétti af þessum meiðslum fyrir leikina hans í Meistaradeild Evrópu og átti samtöl við Aron um þetta. Þannig ég var kannski viðbúinn því að svona gæti farið. Okkar læknar skoðuðu hann síðan og þetta var niðurstaðan,“ sagði Guðmundur sem nánast útilokar það að Aron muni koma eitthvað inn í íslenska liðið þegar líður á HM í Egyptalandi.

„Aldrei lent í þessu á ferlinum“

Guðmundur er með 20 leikmenn á æfingum þessa dagana og gerir ráð fyrir að taka svo stóran hóp með sér til Egyptalands. „Ég ætla nú ekki að útiloka að það gætu orðið einhverjar breytingar á þessum hóp samt á næstu dögum. En undirbúningurinn hefur farið ágætlega af stað. Það vantaði þrjá leikmenn inn í hópinn í gær, en við æfðum auðvitað. En núna eru allir komnir sem standa okkur til boða. Við þurfum að nota þennan dag í dag gríðarlega vel. Það eru tveir vídeófundir og tvær æfingar. Svo förum við til Portúgal á morgun. Það verður langt og erfitt ferðalag þangað. Það þarf að fara krókaleið til að komast til Porto. Það er ekki auðvelt að ferðast um Evrópu um þessa mundir,“ sagði Guðmundur um undirbúninginn.

Ísland mun spila við Portúgal í Portúgal í undankeppni EM 6. janúar. Liðin mætast svo aftur í sömu keppni á Íslandi 10. janúar og svo í fyrsta leik HM í Egyptalandi 14. janúar. „Þetta er óvenjuleg staða. Ég hef aldrei lent í þessu á ferlinum að spila við sama liðið þrisvar í röð á þremur mismunandi löndum í heiminum. Ég hugsa að það hafi ekki gerst áður. En við erum auðvitað löngu byrjaðir að undirbúa okkur og kortleggja þá eins og við getum. Þetta er frábært lið sem stóð sig mjög vel á síðasta Evrópumeistaramóti. Við náðum góðum leik á móti þeim þar. En þetta er mjög erfiður andstæðingur,“ sagði Guðmundur.

Tilkynnir nýjan fyrirliða eftir hádegi

Aron Pálmarsson hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins eftir að Guðjón Valur Sigurðsson lagði skóna á hilluna í vor og var það einnig í fjarveru Guðjóns Vals áður. En hver verður þá fyrirliði núna? „Ég mun tilkynna hópnum það á vídeófundi eftir hádegið hver það verður,“ sagði Guðmundur.