Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjö látin í ASK – „Hryllilegt að sitja og bíða“

03.01.2021 - 20:12
Erlent · Ask · Gjerdrum · Hamfarir · Náttúruhamfarir · Noregur · Evrópa
Mynd: EPA-EFE / NTB
Aðstandendur þrettán ára stúlku og móður hennar sem er saknað í Ask í Noregi segja biðina skelfilega, en halda enn í vonina um að þær finnist á lífi. Sjö af þeim tíu sem urðu undir leirskriðunum hafa fundist látin.

Björgunarfólk býr sig undir að leita áfram í rústunum í alla nótt. Hjónin Mona Trop og Stein Magne Ranum sluppu naumlega þegar hörmungarnar dundu yfir á aðfaranótt miðvikudags.

Heyrðu hrópað á hjálp

Stein Magne gróf Monu upp úr snjónum og þau rétt náðu að forða sér.„Við lágum þarna og heyrðum svo hrópað á hjálp en við gátum ekkert gert, við sátum föst og vorum berfætt,“ segir Mona í viðtali við NRK. „Við gátum ekki farið út í leirinn því þá hefðum við sokkið. Okkur var ómögulegt að gera nokkuð en það var hræðilegt að liggja og hlusta á þetta,“ segir Stein.

Ekki hefur enn verið upplýst um nöfn þeirra látnu, aldur eða kyn utan hins þrjátíu og eins árs Eiriks Grønolen sem fannst á nýársdag. Gréta Björk Guðmundsdóttir, sem býr í bænum, segir að sorgin sé mikil. „Þetta er auðvitað ungt fólk og meira að segja börn. Og heil fjölskylda þar sem mamman var ófrísk og átti von á barni í febrúar. Þannig að þegar þessar einstaklingssögur koma þá verður þetta enn þá raunverulegra fyrir okkur. Þannig að fólk er auðvitað í áfalli.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Åse-Lill Næristorp og Britt Næristorp

Halda í vonina þar til yfir lýkur

Þungaða konan sem Gréta nefnir er hin 31 árs Charlot Grymyr Jansen sem týndist ásamt eigimanni sínum og tveggja ára dóttur. Eitt annað barn varð undir í skriðunum, hin þrettán ára Victoria Emilie. Móður hennar Ann-Mari er einnig saknað. Norska ríkissjónvarpið ræddi við móður hennar og systur sem geta lítið annað gert en bíða og vona. „Við reynum að hugsa ekki út í þetta,“ segir Britt Næristorp, móðir Ann-Mari og amma Victoriu. 

„Það er hryllilegt að sitja og bíða,“ segir Åse-Lill Næristorp sem er systir Ann-Mari. Báðar segjast þær halda enn í vonina.  „Við gerum það þar til yfir lýkur.“