Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sex látin í Ask – heil fjölskylda varð undir skriðunum

03.01.2021 - 13:45
Mynd: EPA-EFE / NTB
Sex hafa fundist látin og fjögurra er enn saknað í Ask í Noregi. Hjón á fertugsaldri og tveggja ára dóttir þeirra urðu undir leirskriðunum. Konan var ófrísk og átti barnið að fæðast í febrúar, segir Gréta Björk Guðmundsdóttir sem býr í Ask. Gréta segir að allir séu í áfalli og sorgin mikil.

Björgunarsveitir fundu fyrir skömmu lík sjöttu manneskjunnar í rústunum. Snemma í morgun fannst sú fimmta. Enn er fjögurra til viðbótar saknað. 

Allir í áfalli og sorgin mikil

Gréta Björk segir að í svo litlu bæjarfélagi séu allir í áfalli. „Núna auðvitað er þetta bara meira mikil sorg. Líka eftir að við heyrum fleiri sögur frá þeim sem er saknað og vitum hvaða fólk þetta er. Þetta er auðvitað ungt fólk og meira að segja börn. Og heil fjölskylda þar sem mamman var ófrísk og átti von á barni í febrúar. Þannig að þegar þessar einstaklingssögur koma þá verður þetta enn þá raunverulegra.“

Á vef NRK má sjá nöfn þeirra tíu sem urðu undir í hamförunum. Þar eru nöfn þriggja manna fjölskyldu. Bjørn-Ivar Grymyr Jansen sem er fertugur, ófrísk kona hans Charlot Grymyr Jansen sem er 31 árs og tveggja ára dóttir þeirra Alma Grymyr Jansen. Ekki hefur verið upplýst hver þessara tíu eru látin, aldur þeirra eða kyn, utan hins þrjátíu og eins árs gamla Eiriks Grønolen sem fannst á nýársdag.  

Óvissan er enn mikil. Íbúum er sagt að þau megi ekki drekka vatn úr krönum. Allur miðbærinn er lokaður og því ekki hægt að versla matvörur í bænum. Meira en þúsund manns vita ekki hvort eða hvenær þau komast aftur heim til sín. „Það er enginn aðdragandi að þessu. Þau segja það jarðfræðingarnir hér að það er ekki hægt að spá fyrir um þetta. Og þetta hefur ekki gerst, svona rosaleg skriða. Síðasta svona aurskriða var hér 1893 held ég að þeir hafi verið að segja,“ segir Gréta.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV