Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pence styður áform um að staðfesta ekki kjör Bidens

epaselect epa07672994 US Vice President Mike Pence speaks during the launching of 'Latinos for Trump' coalition at the DoubleTree by Hilton Hotel Miami Airport & Convention Center in Miami, Florida, USA, 25 June 2019. 'Latinos for Trump' coalition is a national effort to mobilize Latino supporters of President Trump during his 2020 election campaign.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA
Mike Pence, fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur lýst stuðningi við áform ellefu öldungadeildarþingmanna um að staðfesta ekki forsetakjör Joe Bidens á þingfundi á miðvikudag. Biden verður vígður í embætti þann 20. janúar en Donald Trump, fráfarandi forseti, hefur ítrekað sakað mótframbjóðandann um víðtækt kosningasvindl og ekki viðurkennt ósigur.

Pence hefur hingað til ekki haft hátt um að Demókratar hafi beitt kosningasvindli en Marc Short, starfsmannastjóri Hvíta hússins, sagði í gær að varaforsetinn deildi „áhyggjum margra milljóna Bandaríkjamanna af kosningasvindli“. Sem þingforseti öldungadeildarinnar hefur Pence það hlutverk að stýra fundinum á miðvikudag og staðfesta kjör nýs forseta.

Vilja að neyðarnefnd verði skipuð 

Lögfræðiteymi Trumps og stuðningsfólk hefur höfðað fjölda mála vegna meintra kosningasvika en ekkert þeirra hefur náð fram að ganga og engar haldbærar sannanir liggja fyrir um víðtækt kosningasvindl. Á miðvikudag koma þingmenn í öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjaþings saman þar sem niðurstöður kjörmanna í forsetakosningunum verða tilkynntar formlega. 

Ellefu öldungadeildarþingmenn úr röðum Repúblikana, undir forystu Ted Cruz, segjast ekki munu staðfesta kjör Bidens. Þeir fara fram á að sérstök neyðarnefnd verði skipuð sem fái tíu daga til að fara yfir niðurstöður kosninganna. Þrátt fyrir þessi áform er búist við að kjörið verði staðfest. Short segir Pence styðja fyrirætlanirnar, og að þingmenn noti þær heimildir sem þeir hafi til að mótmæla.

Mitch McConnel, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, hefur sagst ekki styðja ráðagerð flokksfélaga sinna og hvetur þá til þess að staðfesta niðurstöður forsetakosninganna. 

Kurr innan flokksins

Bandaríski vefmiðillinn Axios hefur eftir heimildum innan flokksins að margir þingmenn séu afar ósáttir við að vera settir í þessa stöðu, einskonar próf um hollustu við Trump. Á næsta ári verður kosið um sum þingsætanna og einhverjir þingmenn hræðast að Trump styðji aðra frambjóðendur í þeirra sæti, fari þeir ekki að vilja forsetans á miðvikudag. 

Ted Cruz hefur varað kjósendur við því að Demókratar ætli að breyta Bandaríkjunum nái þeir öldungadeildinni. Á þriðjudag verður kosið að nýju um tvö öldungadeildarþingsæti í ríkinu. Ef Demókratar ná þeim verður þingmannastaðan jöfn, 50 - 50. Yrði það raunin fengi varaforsetinn úrslitavaldið - Demókratinn Kamala Harris. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV