Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lögreglan rannsakar meint brot í Landakotskirkju

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Lögreglan var með töluvert eftirlit við messu sem hófst klukkan sex í kvöld í Landakotskirkju eftir að meira en fimmtíu kirkjugestir voru við messu þar klukkan eitt. Hún rannsakar nú meint brot á samkomutakmörkunum í kirkjunni.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Við messuna í dag klukkan eitt.

Of margir í annað sinn á stuttum tíma

Lögregla var kölluð að Landakotskirkju þegar messa á pólsku var hafin klukkan eitt. Þá höfðu þegar farið fram tvær messur í kirkjunni um morguninn. Klukkan þrjú var aftur messa á pólsku, klukkan hálfsex var Rósakransbæn, klukkan sjö var messa á dagskrá og svo eins og áður sagði hófst messa klukkan sex á ensku. 

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem fregnir berast af meintum brotum á sóttvarnareglum í kirkjunni. Á aðfangadagskvöld munu hafa verið þar um 50 manns.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

70 gestir samkvæmt lauslegri talningu

Í reglugerð um samkomutakmarkanir er bannað að halda samkomur með fleiri en tíu manns og á það við um hvers konar kirkjuathafnir að undanskildum jarðarförum þar sem mega vera fimmtíu. 

Og það var ekki jarðarför klukkan eitt í dag í Landakotskirkju. Við lauslega talningu Fréttastofunnar á upptökunum má sjá að minnsta kosti 70 manns eldri en fimmtán ára. 

David Tencer biskup kaþólsku kirkjunnar segir í tilkynningu á vef kirkjunnar að kirkjustarfið muni að sjálfsögðu fara fram í samræmi við allar sóttvarnareglur. Ekki er vitað hvort hann var viðstaddur pólsku messuna í dag en hann er frá Slóvakíu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

51 gestur fór út um aðaldyr kirkjunnar

Lögreglumaður taldi gestina inn í kirkjunni. Og hann taldi líka þá sem komu út um aðaldyrnar og sagði að þeir hafi verið 51 en hann sagði líka að nokkrir hafi verið eftir inni og að svo hafi kirkjugestir líka farið út um hliðardyr.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Patrick Breen.

Presti finnst 50 manns í lagi því kirkjan er stór

Lögreglumaðurinn ræddi síðan við Patrick Breen sóknarprest í Landakotskirkju eftir messu. 

„Ég sjálfur var ekki í messunni en lögreglumaður sagði mér að hann taldi 51 í kirkjunni,“ sagði Patrick við fréttamann eftir að hafa talað við lögregluna. 

„Hann sagði tíu er reglan. En mér finnst sjálfum ef virðum tveggja metra regluna og fólk er með grímu að það sé allt í lagi að vera jafnvel upp í fimmtíu af því kirkjan okkar er svo stór.“

Finnst þér koma til greina að við næstu messur að þið teljið inn tíu kirkjugesti og lokið svo?

„Tíu, nei. Annaðhvort lokum við kirkjunni, við erum ekki að banna fólki að koma í kirkju. Við munum ekki hafa messu og bara telja tíu inn. Mér finnst það ekki koma til greina.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan við eftirlit við Landakotskirkju.

Lögreglan með töluverðan viðbúnað við messu kl. 18

Rétt fyrir klukkan sex þegar Fréttastofan fór aftur að Landakotskirkju voru gestir á leið til kirkju. En það voru líka fleiri, því Fréttastofan sá að minnsta kosti tvo lögreglumenn á mótorhjólum, tvo lögreglubíla og svo var einn lögreglumaður inni í kirkjunni. 

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu verður farið yfir þetta meinta brot í vikunni ásamt nokkrum öðrum málum þar sem grunur er um brot á sóttvarnareglum. Forsvarsmaður kirkjunnar verður þá líklega látinn gefa skýrslu. Í framhaldinu verður svo ákveðið hvort gefin verður út ákæra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tekið á móti kirkjugestum í kirkjudyrum.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fylgst með úr lögreglubíl við Landakotsspítala