Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Í fyrsta sinn farast færri en 100 í norskri umferð

03.01.2021 - 03:38
Mynd með færslu
 Mynd: H.M. Larsen - NRK
Í fyrsta skipti frá því að mælingar hófust, fórust færri en eitt hundrað á einu ári í bílslysum í Noregi. Árið 2020 létust 95 á norskum vegum sem er 13 færri en árið áður að sögn Ingrid Dahl Hovland vegamálastjóra.

Á vef norska ríkisútvarpsins er haft eftir henni að leita þurfi aftur til ársins 1947 til að sjá viðlíka tölur, en annað árið í röð dóu flest, eða nítján, þar sem nú heitir Viken-fylki sem varð til með sameiningu Akerhus, Buskerud og Austfold 1. janúar 2020.

Langflestir hinna látnu eru karlmenn eða 82 af hundraði. Knut Arild Hareide samgönguráðherra segir hug sinni vera hjá ættingjum hinna látnu, enginn eigi að þurfa að láta lífið í umferðaróhöppum og stefnt sé að því.

 

Hvergi í Evrópu verða færri banaslys í umferðinni en í Noregi , hvort sem tekið er tillit til íbúafjölda eða fjölda ekinna kílómetra. Talið er að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif til fækkunnar dauðsfalla í norskri umferð en hún dróst saman um sjö til átta prósent á síðasta ári.