Eydís Helga, Björgvin Logi og Andrea Brá, tveggja ára dóttir þeirra, eru ein fjögurra fjölskyldna sem taka þátt í Loftslagsdæminu, þáttaröð sem í gær hóf göngu sína á Rás 1.
Eydís er 24 ára sjúkraliði á endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Akureyri á Kristnesi og vann á Covid-deildinni í vor. Björgvin er að læra að verða smíður og vinnur við byggingu nýs leikskóla í Glerárhverfi. Þau búa á Akureyri en hvorugt þeirra er þaðan, Eydís er frá Laugum í Þingeyjarsveit en Björgvin úr Reykhólahreppi.
Skora venjurnar á hólm
Í Loftslagsdæminu fylgist Arnhildur Hálfdánardóttir, frétta- og dagskrárgerðarmaður, með fjórum ólíkum fjölskyldum sem reyna að skora vanann á hólm og breyta lífi sínu með það að markmiði að minnka kolefnisspor heimilisins um fjórðung á tveggja mánaða tímabili. Á leiðinni leita fjölskyldurnar svara við ýmsum spurningum sem kvikna og tjá sig opinskátt um reynslu sína.
Ekki farið í strætó síðan í grunnskóla
„Ég hef svolítið stjórnað þessu hjá okkur,“ viðurkennir Eydís og Björgvin tekur undir það. Hún hafi pælt meira í loftslagsmálunum.
Þau Eydís og Björgvin skjóta á að kolefnisspor heimilisins sé í meðallagi. Þau aka Skoda Octaviu, árgerð 2016, og þó það sé frítt í Strætó á Akureyri hefur Björgvin ekki stigið fæti inn í strætisvagn síðan í tíunda bekk, Eydís tók stundum strætó á meðan hún var í fæðingarorlofi.