Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ég hef svolítið stjórnað þessu hjá okkur“

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið

„Ég hef svolítið stjórnað þessu hjá okkur“

03.01.2021 - 14:02

Höfundar

Snjallsími, ryksuguróbot, ilmolíulampi, rafmagnssög, borðstofustólar, barnaeldhús og blómapottar. Þetta er meðal þess sem þau Eydís Helga Pétursdóttir og Björgvin Logi Sveinsson festu kaup á á fyrstu átta mánuðum ársins 2020. Já og svo slatti af útivistarfötum úr Icewear, starfsmenn sjúkrahússins fengu nefnilega afslátt. 

Eydís Helga, Björgvin Logi og Andrea Brá, tveggja ára dóttir þeirra, eru ein fjögurra fjölskyldna sem taka þátt í Loftslagsdæminu, þáttaröð sem í gær hóf göngu sína á Rás 1. 

Eydís er 24 ára sjúkraliði á endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Akureyri á Kristnesi og vann á Covid-deildinni í vor. Björgvin er að læra að verða smíður og vinnur við byggingu nýs leikskóla í Glerárhverfi. Þau búa á Akureyri en hvorugt þeirra er þaðan, Eydís er frá Laugum í Þingeyjarsveit en Björgvin úr Reykhólahreppi. 

Skora venjurnar á hólm

Í Loftslagsdæminu fylgist Arnhildur Hálfdánardóttir, frétta- og dagskrárgerðarmaður, með fjórum ólíkum fjölskyldum sem reyna að skora vanann á hólm og breyta lífi sínu með það að markmiði að minnka kolefnisspor heimilisins um fjórðung á tveggja mánaða tímabili. Á leiðinni leita fjölskyldurnar svara við ýmsum spurningum sem kvikna og tjá sig opinskátt um reynslu sína.

Ekki farið í strætó síðan í grunnskóla

„Ég hef svolítið stjórnað þessu hjá okkur,“ viðurkennir Eydís og Björgvin tekur undir það. Hún hafi pælt meira í loftslagsmálunum.

Þau Eydís og Björgvin skjóta á að kolefnisspor heimilisins sé í meðallagi. Þau aka Skoda Octaviu, árgerð 2016, og þó það sé frítt í Strætó á Akureyri hefur Björgvin ekki stigið fæti inn í  strætisvagn síðan í tíunda bekk, Eydís tók stundum strætó á meðan hún var í fæðingarorlofi. 

Nóg að gera

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið
Andrea að lita í Dagskrána. Klifurgrindina smíðaði pabbi hennar.

Það hefur verið talsvert álag á fjölskyldunni.  Andrea Brá var að byrja í leikskóla og Eydís Helga er búin að vera á stanslausum álagsvöktum. „Það er búið að vera ógeðslega mikið að gera og við  höfum verið mjög léleg að elda upp á síðkastið, þess vegna er kannski aðeins meiri pappi því við höfum verið að panta pizzur en svo er ég búin að vera rosa kræf við að rífa kassana í sundur og setja það sem er hreint í pappatunnuna,“ segir Eydís.

Við kynnumst Eydísi, Björgvin og Andreu í fyrsta þætti Loftslagsdæmisins, þáttaraðar sem hóf göngu sína á Rás 1 í gær.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt