Lúndúnalögreglan hyggst sekta 217 eftir að upp komst um óleyfilega tónleika og fjölmenn veisluhöld í borginni á gamlárskvöld. Þúsundir komu saman víða um borgina þrátt fyrir strangar reglur sem banna fjölmennar samkomur.
Alls hafði lögreglan afskipti af 58 áramótafögnuðum sem teljast brot á ströngum sóttvarnarreglum þess hæsta viðbúnaðarstigs sem nú er í gildi. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að flestum stöðum hafi verið lokað eða veisluhldum hætt, eftir íhlutun hennar.
Fimm eigi þó yfir höfði sér allt að tíu þúsund Sterlingspunda, jafngildi 1740 þúsund króna, sekt fyrir að skipuleggja fjölmennar samkomur. Paul Brogden yfirmaður í lögreglunni hvetur fólk til að láta af slíku athæfi meðan baráttan við kórónuveirufaraldurinn er háð. Ella verði óhikað gripið til harðra aðgerða, þar á meðal hárra sekta.