Lagði mikla ástríðu í húsið
Breiðablik er eitt sögufrægasta hús Seyðisfjarðar, byggt 1902, en það hefur átt betri daga. Cordula Agnes Marianne Schrand, eigandi hússins, er smiður og búsett í Þýskalandi. Hún hefur komið til Seyðisfjarðar þrisvar til fjórum sinnum á ári síðustu tuttugu ár til að vinna í húsinu.
Hvernig er að sjá húsið svona? „Mjög dapurlegt. Þetta er ævistarfið mitt. Ég lagði svo mikla ástríðu í það. Þetta er eins og að sjá ævisöguna klárast og ég held að þetta sé enn verra fyrir son minn. Og alla hér í kring sem hjálpuðu okkur að gera húsið að því sem það var að lokum. Þetta tekur mjög á hjartað,“ segir Cordula.
Skriðan ruddi húsinu tugi metra
Skriðan hrifsaði með sér húsið og ruddi því allt að fimmtíu metra. Breiðablik var mannlaust þegar skriðan féll, Cordula var í heimkomusóttkví annarstaðar eftir ferðalagið frá Þýskalandi. „Ég mátti ekki vera hérna vegna kórónuveirunnar og gat ekkret gert. Ég er fegin að hafa ekki verið í húsinu.“
Eins og fleiri í sömu stöðu þarf Cordula að tína til innbúið sem skemmdist og í framhaldi er mat lagt á tjónið. Cordula hefur hug á að bjarga því sem hægt er, sér í lagi persónulegum munum sem hún átti í húsinu. „Hér sjáið þið litríka veggfóðrið mitt og sófann sem langafi minn fékk að gjöf í upphafi nítjándu aldar. Þetta er sögulegt húsgagn og ég vil helst bjarga honum.“
Cordula sá fyrir sér að hún myndi flytja til Seyðisfjarðar og eyða ellinni í húsinu. En hvað tekur við? „Ég veit það ekki. Mig langar ekki að endurbyggja húsið aftur á sama stað því þetta gæti gerst aftur. Ég er orðin sextug og veit ekki hvort ég hef kraft til þess.“