Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skortur á lóðum og lágir vextir hækka fasteignaverð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Pálsson fasteignasali segir mjög hátt verð á lóðum og takmarkað framboð nýrra íbúða vera meðal þess sem veldur því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu sé mun hærra en það þyrfti að vera. Sögulega lágir vextir hafi einnig áhrif á verðið.

Þetta segir Páll í samtali við Morgunblaðið í dag og að brýnt sé að breyta um stefnu eða gera langtímaáætlun fyrir svæðið allt til að framboð á nýju húsnæði verði í samræmi við mannfjöldaspár.

Íbúðaverð hafi hækkað á árinu, sem Páll telur skýrast af lágum vöxtum á fasteignalánum, um 10% meira hafi selst af íbúðum en árið 2019 og uppsöfnuð þörf sé orðin fyrir íbúðir.

Sömuleiðis er haft eftir Páli að seinagangur í stjórnsýslu tefji fyrir framkvæmdum sem auki kostnað húsbyggjenda og hægi á því að nýjar eignir komi inn á markaðinn. Páll hvetur jafnramt til, í samtali sínu við Morgunblaðið, að reglur verði rýmkaðar þannig að breyta megi atvinnuhúsnæði í íbúðir.